sunnudagur, ágúst 31, 2008

31. ágúst 2008 – Enn um póstsendingar.


Eitthvað er ég farin að ryðga í Íslandssögunni en samt sitja í mér gamlar sögur frá Tyrkjaráni. Rifja ég þar upp sögur af því er einhverjir Íslendingar voru sendir í Barbaríið og þótti slíkt ekki góður endir á sögu. Aldrei spáði ég í Barbaríið fyrr á árum, en nýlega kom Barbaríið upp í hugann.

Eins og ég hefi áður greint frá, er ég mikil áhugamanneskja um póstsendingar, þó aðallega fyrr á árum. Auk ágætis frímerkjasafns á ég einnig ágætt safn póstkorta frá fyrri tíð. Áhugi minn fyrir póstkortum kemur þó ekki til af góðu. Frænka mín ein gaf mér safn póstkorta sem hún hafði eignast eftir einhvern vonbiðil sinn, en faðir vonbiðilsins var virkur í breska hernum eftir aldamótin 1900. Þá skilst mér að vonbiðillinn hafi sjálfur farist í hernaði breskra við heri Rommels í Norður-Afríku á styrjaldarárunum.

Þegar frímerkjasafnið mitt er komið í þær hæðir að vöntunin nær einungis til frímerkja sem ég mun aldrei eignast, fer ég að skoða önnur áhugasvið innan sömu greinar. Þá koma gömul póstkort helst til greina. Fyrir nokkru rakst ég á gamalt póstkort á ebay sem ég kolféll fyrir. Ástæðan var einfaldlega að það var sent frá Villa Real í Portúgal árið 1898 til náttúrufræðings sem hafði aðsetur í Barbaríinu. Auðvitað bauð ég örfáar krónur í kortið og fékk.

Eins og gefur að skilja, er auðvelt fyrir áhugafólk um sögu og landafræði að finna út hvar Barbaríið var út frá heimilisfanginu, en samt ætla ég ekki að segja frá en gefa fólki kost á að þefa út hvar Barbaríið var í raun og veru.

Þið sem vitið, vinsamlegast segið ekki frá í athugasemdum. Þeim athugasemdum verður eytt! Þið megið samt alveg láta mig vita hvort þið vitið eður ei.

-----oOo-----

Þessi bloggfærsla er ekki birt á Moggabloggi. :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli