sunnudagur, nóvember 11, 2007

11. nóvember 2007 - II - Minningardagur fallinna hermanna


Á borðinu fyrir framan mig er gömul bók sem tengist hermönnum, Minningarrit íslenzkra hermanna sem gefið var út í Winnipeg árið 1923. Í henni eru myndir og stutt æviágrip Íslendinga fæddra á Íslandi eða börn foreldra sem fæddust á Íslandi sem skráðu sig til herþjónustu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Í dag eru liðin 89 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar og hefur þessi dagur verið lýstur Remembrance day í Bretlandi og breska samveldinu sem og víða um heim, en til aðgreiningar frá hinum bandaríska Memorial day í maí hefur hann hlotið heitið Veterans day þar í landi, en Armistice day í einhverjum ríkjum Vestur-Evrópu.

Rúmlega 1300 Íslendingar eða fólk af íslensku bergi tók þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Af þessum hópi féllu um 143, flestir í beinum átökum, en nokkrir af óbeinum afleiðingum styrjaldarinnar. Auk þeirra féllu um 30 Kanadamenn af íslenskum heimilum, flestir kvæntir íslenskum konum.

Ekki treysti ég mér til að telja upp mannfall Íslendinga í seinni heimsstyrjöld eða öðrum styrjöldum síðar, en einhverjir íslenskir hermenn eru taldir upp í bókinni Veterans of Icelandic Descent World War II sem og einhverjir sem féllu í Vietnam. Mig grunar reyndar að sú skrá sé ekki tæmandi. Þar er til dæmis ekki getið eins leikfélaga míns sem fór til bandarísks föður síns um 1960 og sögur segja að hafi fallið í Vietnam. Hans er ekki getið í bókinni og ekki hefi ég skoðað minningarmúrinn í Washington DC til að kanna hvort hann sé þar að finna.

Það er full ástæða til að minnast þessa fólks sem voru fórnarlömb hatrammra styrjalda.


0 ummæli:Skrifa ummæli