þriðjudagur, nóvember 20, 2007

20. nóvember 2007 - Íslensk tunga


Það er ekki oft sem ég og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir erum sammála, en það skeði samt á föstudaginn var, á degi íslenskrar tungu. Ég held bara að við höfum ekki verið sammála um eitt né neitt síðan hén réði Pál Magnússon í embætti útvarpsstjóra. Og þó,við erum líka sammála um ráðningu Guðrúnar Ögmundsdóttur sem verkefnastjóra hjá menntamálaráðuneytinu.

Ég er löngu búin að fá upp í kok af öllum þessum ensku heitum á fyrirtækjum og verslunum í Reykjavík. Ég viðurkenni að vísu vilja erlendra eigenda verslunarkeðja að þeir vilji halda nöfnum sínum á verslunum sínum hvar sem þær eru niðurkomnar, samanber Kentökký fræd tsikken og Tojs er Öss, en mér finnst algjör óþarfi að gera slíkt hið sama með íslensk fyrirtæki eins og Eivíón grúpp og Æsland Express.

Hugsið ykkur ruglið. Hér á landi hafa verið starfrækt gæðafyrirtæki á borð við Barnasmiðjuna með eigin framleiðslu undir vörumerkinu Krummagull og svo hreinræktaðar verslanakeðjur eins og Leikbær. Til hvers á ég þá að fara í verslanir á borð við Tojs err öss, skrifað Toys´r Us, með vafasama starfsmannastefnu eins og átti sér stað þegar þessar verslanir opnuðu með pomp og prakt í Svíþjóð?

Ég verð að hugsa mig tvisvar um áður en ég legg slíkt á mig.

Kannski er ég ekki eins vandlát þegar kemur að því að kaupa föt utan á mig. Þó ber ein af uppáhaldsverslunum mínum nafn stofnanda síns, undurfallegt íslenskt nafn,
en samtímis get ég ekki hunsað Lilju vinkonu mína Hauksdóttur í Cosmó, en hún og starfsfólk hennar hafa sýnt mér alúð og velvilja frá því ég flutti aftur til íslands fyrir ellefu árum. Sömu sögu er að segja af Katrínu í Veftu, fataversluninni í Hólagarði. Ég veit hinsvegar ekki hvaðan nöfn verslana þeirra eru komin.

Ég á enga hljómdiska með íslenskum listamönnum sem flytja tónlist sína á ensku. Þó á ég diska með erlendum hljómsveitum sem flytja tónlistina á ensku og þýsku og sænsku; og ég á marga diska með íslenskum listamönnum sem flytja tónlist á íslensku.

Þrátt fyrir hughreystingarhjal ýmissa íslenskufræðinga á föstudag þess efnis að íslensk tunga sé ekki í neinni hættu, er ég með áhyggjur af íslenskri tungu, móðurmáli mínu og áa minna langt aftur í ættir.

Kannski getum við Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir haldið áfram að vera ósammála um þá styrki sem þarf að veita til að efla íslenskufræðslu til handa nýjum Íslendingum, en þar vil ég að sjálfsögðu ýta undir íslenskukennsluna með ókeypis fræðslu til handa því ágæta fólki sem vill setjast hér að til frambúðar, ekki síst í ljósi þess að mikill fjöldi þess hefur aldrei notið neinnar þjónustu hins opinbera, öfugt við langflesta Íslendinga.


Fæ mér einn danskan öl í glasi merktu Hviids vinstue í minningu ástmögurs þjóðarinnar sem hefði átt 200 ára afmæli síðastliðinn föstudag.


0 ummæli:Skrifa ummæli