miðvikudagur, nóvember 28, 2007

28. nóvember 2007 - Varað við hálku!

Það var fagurt útsýnið til norðurs þar sem ég bjó áður á sjöttu hæð í blokk í Hólahverfinu, enda var hægt að sitja úti í glugga löngum stundum og njóta útsýnisins og Esjunnar sem og mannlífsins niðri á bílastæðunum og gangstígunum meðfram húsinu.

Einhverju sinni, þegar blotnað hafði eftir kuldatíð og svellalög á jörðu, sat ég úti í glugga og virti fyrir mér það sem við augu bar utandyra og veitti þá athygli manni einum á gangstígnum fyrir neðan og virtist hann nokkuð við aldur ef marka mátti göngulagið. Hann gekk eins og Stekkjastaur og ríghélt sér í allt sem hönd á festi á leið sinni meðfram húsinu. “Æ, hvað er að sjá vesalings gamla manninn, af hverju fær hann sér ekki göngugrind í stað þess að staulast svona áfram?”, hugsaði ég þar sem ég fylgdist með manninum sex hæðum neðar.

Nokkru síðar þennan sama dag mundi ég eftir því að ég átti erindi út í búð að kaupa salt í grautinn eða eitthvað með kaffinu. Ég fór niður og út áleiðis í búðina. Ég hafði ekki komist nema fimm eða sex metra frá húsinu þegar fæturnir á mér fengu skyndilega þá hugdettu að gá til himins. Það sem eftir var ferðar minnar út í búð sem og á ferð mín heim aftur, gekk ég nákæmlega eins og “gamli” maðurinn sem hafði ríghaldið sér í allt sem hönd á festi á leið sinni út í búð.


0 ummæli:Skrifa ummæli