laugardagur, nóvember 03, 2007

3. nóvember 2007 - Barði og trumbuslagararnir


Ef mikið er af auglýsingatímum í miðjum sjónvarpsþáttum er ég venjulega búin að fá nóg og farin að snúa mér að öðrum áhugamálum í öðrum auglýsingatíma. Þetta á jafnt við um Formúluna sem Laugardagslögin. Ég vandi mig því á að byrja ekki að horfa á útsendingu frá keppnum í Formúlunni fyrr en eftir annað auglýsingahlé og bílarnir komnir af stað í upphitunarhringinn. Þá hefur þátturinn Laugardagslögin verið svo hræðilega litlaus að ég hefi ekki nennt að horfa á hann til enda.

Nú brá öðruvísi við. Ég sá byrjunina og þegar kom að öðru auglýsingahléi var ég farin að snúa mér að skemmtilegri þáttum tilverunnar að venju. Skyndilega heyrði ég þetta frábæra tölvupopp og trumbuslátt innan úr stofu rétt eins og Kraftwerk væru komnir á sviðið. Ég fór að hlusta og horfa.

Útsetning og sviðssetning á lagi Barða Jóhannssonar reyndist vera tær snilld og það kom mér ekkert á óvart að það skyldi komast áfram í lokakeppnina. Hið einasta sem ég sá athugavert við flutninginn var að hljómborðsleikarinn skyldi ekki líka vera ber að ofan eins og trumbuslagararnir og karlsöngvarinn sem ég veit ekki nöfnin á.

Ef Barði kemst ekki áfram alla leið í lokakeppni Júróvisjón í vor með þessu taktfasta lagi verð ég illa svikin. Verð ég þó seint talin mikill aðdáandi teknó og trumbusláttartónlistar.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4360041


0 ummæli:Skrifa ummæli