laugardagur, nóvember 24, 2007

24. nóvember 2007 - Oft ratast kjöftugum satt orð á munn!

Ég verð seint talin vera í vináttu við Össur Skarphéðinsson þótt bæði séum við flokksbundin í Samfylkingunni og þrátt fyrir ágætis kunningsskap við Magnús bróður hans. Í þetta sinn erum við þó sammála, ég og Össur, að upphlaup ungliðadeildar Sjálfstæðisflokksins með hjálp vinstrigrænna og annarra hafi skaðað Orkuveitu Reykjavíkur og útrásarstefnu hennar verulega.

Það má vissulega gagnrýna ýmislegt í sameiningarferli REI og GGE, en um leið var um að ræða stórkostlegt útrásartækifæri, þar sem Orkuveitan lagði til fjármagn og þekkingu á móti fjármagni frá einkageiranum, öllum hlutaðeigandi til hagsbóta í framtíðinni undir öruggri stjórn Bjarna Ármannssonar. Með hinu fáránlegu upphlaupi og þá fyrst og fremst því er stuttbuxnaliðið klagaði gamla góða Villa fyrir Geir Haarde, tókst að klúðra þessu frábæra viðskipta- og útrásartækifæri sem jafnframt hefði getað orðið mjög hagkvæmt fyrir jörð hinna þverrandi orkuauðlinda.

Í dag er Villi fallinn og nýr meirihluti tekinn við völdum í ráðhúsinu. Þótt ég fagni óvæntri upphefð Dags B. Eggertssonar, er ljóst að það mun taka langan tíma að bæta skaðann sem orðinn er og það verður erfitt að bera klæði á vopnin eftir það sem á undan er gengið.

Í ljósi þessa fagna ég orðum Össurar Skarphéðinssonar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1304972


0 ummæli:Skrifa ummæli