laugardagur, nóvember 17, 2007

17. nóvember 2007 – Óskabarn þjóðarinnar
Í fórum mínum á ég gamla bók sem Sigurlaugur Þorkelsson (faðir Þorkels Sigurlaugsonar) og starfsmaður Eimskipafélags Íslands til margra áratuga gaf mér á sínum tíma og er hún enn í uppáhaldi hjá mér. Bókin heitir Eimskipafélag Íslands tuttugu og fimm ára og var afmælisrit félagsins árið 1939.

Þegar ég var í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð var bókin meginheimild mín í sögu um upphaf siglinga við Ísland með gufuskipum 1855-1914. Ritgerðin er löngu glötuð og hið einasta sem stendur af henni er minning um ágæta ritgerð sem gaf mér góða einkunn.

Við lestur bókarinnar komst ég ekki hjá því að hrífast með stórhug og baráttu þess fjölda fólks sem sló saman aurunum uns margar urðu krónurnar í þjóðarátaki til stofnunar félags sem tryggja átti íslenskri þjóð flutninga til og frá landinu með íslenskum skipum og íslenskum áhöfnum.

Það urðu mörg áföllin á langri vegferð en einnig margir sigrarnir. Árið 1930 voru skipin orðin sex, öll með íslenskum áhöfnum og hélst sá skipastóll uns kom til heimsstyrjaldar sem varð til fækkunar skipa og áhafna í stríðslok og fyrstu árin eftir stríð. Eftir það hófst mikil endurnýjun og uppbygging skipastólsins.

Þegar ég hóf fyrst störf hjá félaginu í ársbyrjun 1971 átti það þrettán skip og hið fjórtánda í smíðum, öll með íslenskum áhöfnum. Þegar Mánafoss kom til landsins um vorið var sérstaklega tekið fram í frétt af komu skipsins að nú væru 402 skipverjar á skipum félagsins. Skipafjöldinn komst sem mest upp í 23 skip undir íslenskum fána og 26 skip alls. Í dag eru fjögur skip félagsins með íslenskum áhöfnum, ekkert undir íslenskum fána.

Í dag dettur engum til hugar að tala um Óskabarn þjóðarinnar þegar minnst er á Eimskip. Því miður, því mér þykir enn vænt um félagið.

-----oOo-----

Meðal athugasemda sem hafa borist mér við fyrri færslu var ein sem benti á spillingu stjórnmálamanna og hugsanlega bitlinga þeim til handa frá þeim ríku. Ef frá er talinn sá augljósi bitlingur sem nefndur var í fyrri færslu þegar ráðherrann tók við nýju skipi Samskipa fyrir hönd Færeyinga, ætla ég ekki að hætta mér út í vangaveltur um þá hluti.


0 ummæli:Skrifa ummæli