fimmtudagur, nóvember 15, 2007

16. nóvember 2007 - Blekkingar starfsmannastjórans


“Hefurðu séð blöðin í gær?” spurði vinkona mín stórhneyksluð á svip.
“Það er verið að skipta íslensku hásetunum út á skipum Samskipa fyrir rússneska háseta á sultarlaunum.”

Það var eðlilegt að konan væri hneyksluð, gift sjómanni og hefur löngum borið hag sjómannastéttarinnar sér fyrir brjósti. Ég vildi fá að vita í hvaða blaði þetta hefði birst, en þá var hún ekki viss, hafði þetta eftir annarri hneykslaðri sjómannskonu, en hélt að það væri í DV. Ég hringdi í Erlu frænku á DV sem staðfesti við mig fréttina og í framhaldinu náði ég mér eintak af DV.

Þar var viðtal við Einar Inga Einarsson sem sér um ráðningar skipverja á skip Samskipa. Í viðtalinu hélt hann því fram fullum fetum að til að fá réttindi til að sigla sem háseti þurfi sex mánaða starfsþjálfun á sjó og námskeið í Fjöltækniskólanum og það væri ekkert fólk að fá sem hefði þessi réttindi. Hvað er maðurinn að rugla? hugsaði ég. Einustu skilyrðin eru þau að hafa farið á hin bráðnauðsynlegu námskeið hjá Slysavarnarskóla sjómanna.

Svo áttaði ég mig á klókindunum. Skipin eru skráð í Færeyjum og þar sem í Danmörku mun vera krafa um að hásetar á farskipum sigli fyrst sem viðvaningar í sex mánuði. Hvernig á að vera hægt að ná þessum réttindum á Ísland? Það er ekki hægt. Það eru engir viðvaningar til lengur á skipum íslenskra útgerða. Það er búið að útrýma þeim rétt eins og loftskeytamönnum og eins og verið er að útrýma öðrum farmönnum! Þeir verða einfaldlega að ráða fullgilda háseta á skipin á mannsæmandi launum í stað þess að einblína á viðvaninga. Þeir hafa bara ekki áhuga fyrir slíku.

Í stað Íslendinganna sem eru látnir hætta, eru ráðnir Rússar og Lettar eða þá Króatar og þurfa þeir að skila 270 tíma vinnu á mánuði um borð fyrir 1500 $. (90.000 krónur á mánuði) Fyrir næstu 100 tíma í yfirvinnu fá þeir 500 $ að auki. Ég ætla að taka fram að þessar upphæðir eru óstaðfestar, en þetta eru þær tölur sem ég hefi heyrt af launum nýju hásetanna á Arnarfelli og sel það ekki dýrara en ég keypti það.


Hvað skyldu svo íslensk stjórnvöld gera? Svarið er einfalt. Ekki neitt! Þrír síðustu samgönguráðherrar hafa stuðlað að útrýmingu íslenskrar farmannastéttar, allir þrír, Halldór Blöndal, Sturla Böðvarsson og nú síðast Kristján L. Möller. Sturla Böðvarsson tók að auki þátt í skrípaleiknum er hann tók við Arnarfellinu fyrir hönd færeysku þjóðarinnar sem samgönguráðherra Íslands. Hann var verðlaunaður fyrir tiltækið með forsetaembætti á hinu háa Alþingi.

Sum skipa íslensku skipafélaganna eru sögð sigla undir sjóræningjafánum. Fremstur sjóræningjanna er þá væntanlega sá sem fékk Elton John til að syngja í fimmtugsafmælinu sínu. Með enn frekara þrælahaldi á skipum sínum ætti hann að geta endurvakið Elvis frá dauðum til að syngja í sextugsafmælinu sínu.

Sjá og:

http://jp.blog.is/blog/jp/entry/365609/


0 ummæli:Skrifa ummæli