föstudagur, nóvember 30, 2007

30. nóvember 2007 - Að kvitta undir VISA-nótur

Mér finnst rétt eins og flestum, ákaflega leiðinlegt að kvitta undir VISA-reikninga þegar ég að versla eitthvað. Ekki er það til að bæta úr að aðstaðan til þess er oft á tíðum slæm. Ef boðið er að skrifa undir í réttri hæð, er það á illa festum undirfleti svo að undirlagið leikur á reiðiskjálfi meðan kvittað er. Þá er víða boðið upp á að skrifa undir á sjálfu afgreiðsluborðinu sem gerir að verkum að ég verð að beygja mig og hneigja fyrir afgreiðslufólkinu um leið og skrifað er. Er ég þó ekki nema 1,75 metrar á hæð.

Sumir hafa festan penna hægra megin við kvittunarstaðinn til að forðast að viðskiptavinurinn taki pennann með sér þegar farið er úr búðinni. Ekki er sú leiðin betri hvað mig snertir, að þurfa að teygja á pennafestingunni eins og hægt er svo hægt sé að skrifa undir með réttri hendi, þ.e. þeirri vinstri.

Einn er sá afgreiðslustaður sem býður upp á betri möguleika en aðrir og leysir skemmtilega úr vandamálum okkar örvhentra. Áfengisverslunin Heiðrún sem staðsett er í Hálsaskógi hér í Árbæ, er að sjálfsögðu með penna báðum megin og þjónar þannig bæði okkur vinstrafólkinu sem er trútt skoðunum sínum út í fingurgóma og hægrisinnum.

Ætli það sé vegna þessarar þjónustu, en ekki vegna vöruúrvalsins sem mér þykir svo gott að versla þar?


0 ummæli:Skrifa ummæli