mánudagur, nóvember 19, 2007

19. nóvember 2007 - Stoltur níræður bíleigandi


Fyrir nokkrum árum mátti lesa frétt þess efnis að lögreglan í Borgarnesi hefði stöðvað 91 árs gamlan mann og mun sá vera elstur allra sem teknir hafa verið fyrir of hraðan akstur í umdæmi Borgarneslögreglunnar. Einhver hvíslaði því að mér hver hefði verið þar á ferð og veit ég að sá hinn sami hefur ekið bíl alla tíð frá því hann tók bílpróf á þriðja eða fjórða áratug tuttugustu aldar og ekur hann enn daglega og dettur engum til hugar að um sé að ræða mann sem nú er kominn hátt á tíræðisaldur.

Á forsíðu sunnudagsblaðs Fréttablaðsins er sagt frá níræðum manni á Hvolsvelli sem var að eignast sinn fyrsta bíl á ævinni, manni sem einungis tvisvar hefur ekið bíl eftir að hann fékk bílprófið í maí 1941. Sjálfsagt er að óska gamla manninum til hamingju með bílakaupin og geri ég það hér með. Um leið er vafamál hvort óska eigi öðrum vegfarendum til hamingju með þessi bílakaup.

Það er mikill munur á þessum tveimur köppum þótt báðir séu vafalaust hinir hressustu andlega og líkamlega, þrátt fyrir háan aldur. Annar hefur keyrt daglega, hinn nánast aldrei. Annar er vanur hinni miklu streytu sem oft fylgir umferðinni nú á dögum, hinn er streytuvaldurinn. Hinn síðarnefndi mun aldrei ná þeirri færni sem þarf til að vera úti í umferðinni. Það er einfaldlega of seint fyrir hann þar sem hann vantar alla æfingu sem og snerpu yngri áranna. Þá er vafamál hvort hann megi aka bíl, en ef mig misminnir ekki, voru í eina tíð til reglur þess efnis að banna mætti fólki akstur ef of langt væri síðan síðast var ekið (vafamál hvort slík regla standist stjórnarskrá).

Þá má ætla að sá sem hefur komist af án þess að aka bíl í 90 ár geti komist af án þess það sem eftir er ævinnar, en til vara að ökumanninum sé gert það skylt að aka ekki út fyrir hérað. Slíks munu vera fordæmi hjá ágætri eldri konu austur á fjörðum sem tók bílpróf í Reykjavík. Hún gat ómögulega lært að aka í hringtorgi og að lokum gerðu hún og prófdómarinn með sér heiðursmannasamkomulag þess efnis að hún fengi prófið, en keyrði ekki út fyrir Austfirði þar sem engin voru hringtorgin á þeim tíma.

http://vefblod.visir.is/index.php?netpaper=496


0 ummæli:







Skrifa ummæli