fimmtudagur, nóvember 29, 2007

29. nóvember 2007 - Andrea Ey

Útfararræðan hans séra Bjarna Karlssonar í dag var falleg og innileg.

Það var haustið 1974 sem farið var að gera togarann Vestmannaey út frá Vestmannaeyjum eftir að hafa verið gert út frá Hafnarfirði vegna Eyjagossins frá því skipið kom til landsins í febrúar 1973.

Það var þetta haust sem Eyjólfur Pétursson frændi minn og skipstjóri á Vestmannaey fór að slá sér upp með ungri einstæðri móður í Eyjum, Ingveldi Gísladóttur, kvæntist henni og gekk börnum hennar í föðurstað. Andrea var þá tveggja ára og ólst upp í Vestmannaeyjum. Sjálf hafði ég tækifæri til að fylgjast vel með fjölskyldunni fyrstu árin á meðan ég var á Vastmannaey og bjó í Eyjum.

Vegna fjarlægðar voru aldrei mikil samskipti okkar á milli eftir að ég flutti frá Eyjum, kom þangað sjaldan og fylgdist einungis með fjölskyldunni á Bröttugötunni þegar stórir atburðir áttu sér stað, fæðingar, afmæli og jarðarfarir.

Í dag var Andrea Ey borin til grafar, einungis 35 ára gömul. Hún hafði átt í baráttu við fíkniefnadjöfulinn í mörg ár, stundum sigrandi, stundum ekki. Hún sýndi okkur hinum að fíkniefnin og Bakkus geta komið við allsstaðar, ekki síður hjá velefnuðu og kærleiksríku heimili eins og í þessu tilfelli þar sem foreldrarnir hafa ávallt farið vel með sitt.

Með þessum orðum vil ég votta Ingu, Eyfa og systkinum hinnar látnu, þá sérstaklega Eyjólfi Inga, syni hinnar látnu, samúðarkveðjur mínar.


0 ummæli:Skrifa ummæli