þriðjudagur, nóvember 13, 2007

14. nóvember 2007 - Mamma hennar Línu ...


... langsokks er 100 ára í dag. Kannski ekki mamma hennar beint, heldur konan sem skóp sögupersónuna Línu langsokk og fjölda annara skemmtilegra persóna sem börn hafa hrifist með og dáðst að, börn á borð við Ronju ræningjadóttur, Emil í Kattholti og leynilögreglumanninn Karl Blómkvist auk fjölda annarra skemmtilegra persóna.

Það var 14. nóvember 1907 (tveimur dögum fyrir 100 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar) sem bændahjónunum Samuel August Ericsson og Hanne Ericsson fædd Jonsson í bænum Näs nærri Vimmerby í Småland fæddist dóttirin Astrid Anna Emilia Ericsson. Hún ólst upp á kærleiksríku heimili foreldra sinna í hópi eldri bróður og tveggja yngri systra. Árið 1924 hóf hún störf á Wimmerby tidning sem prófarkalesari, en árið 1926 verður hún ólétt af syninum Lars með ritstjóranum á blaðinu, vildi ekki hefja búskap með honum og flutti til Stokkhólms þar sem hún lærði vélritun og hraðritun.

Árið 1929 hóf hún störf hjá Kongliga Automobil Klubben, þar sem hún kynntist skrifstofustjóranum Sture Lindgren og giftist honum 1931. Hún eignaðist annað barn sitt, Karin, 1934.

Árið 1941 lá Karin heima með lungnabólgu og Astrid Lindgren hóf að segja henni sögurnar um Línu langsokk. Þremur árum síðar sendi hún handrit að sögunni um Línu til bókaútgáfunnar Bonnier sem höfnuðu henni. Hún lagfærði þá texta handritsins og sendi hana inn í samkeppni um barnabók hjá útgáfunni Rabén og Sjögren þar sem bókin hlaut fyrstu verðlaun. Áður hefði sama forlag gefið út bókina “Britt-Mari lättar på sitt hjärta”, en með Línu langsokk kom stóri sigurinn.


Frá 1947 til 1970 vann Astrid Lindgren í hlutastarfi hjá Rabén & Sjögren sem ritstjóri barnabókadeildarinnar. Árið 1976 lenti hún óvart inni í pólitískum deilum er hún sem jafnaðarmanneskja sagði frá því í grein í Expressen í miðri kosningabaráttunni að hún hefði verið látin greiða 102% af tekjum sínum í skatta. Þessi orð hennar eru af mörgum talin hafa orðið til að ríkisstjórn Olofs Palme féll í þingkosningunum þá um haustið og ríkisstjórn Torbjörns Fälldin tók við.

Bækur Astrid Lindgren hafa nú verið seldar í 145 milljónum eintaka og þýddar á minnst 88 tungumál.

Astrid Lindgren lést 28. janúar 2002 á heimili sínu í Stokkhólmi þar sem hún hafði búið síðan 1926.

Þótt hún sé einn dáðasti barnabókahöfundur sem uppi hefur verið fékk hún aldrei Nóbelinn, ekki fremur en minni spámenn á borð við Gunnar Gunnarsson og Davíð Stefánsson. Hún fékk hinsvegar fjölda annarra viðurkenninga bæði heima og erlendis en sennilega má halda því fram að þær viðurkenningar sem henni þótti vænst um, hafi verið hrifning barna á sögupersónum hennar.

Einhverju sinni minnist ég sjónvarpsviðtals við Astrid Lindgren og spyrillinn spurði beint: Hvar er Emil í Kattholti? (sögurnar um Emil eru unnar úr reynslusögum föður hennar frá æskuárunum á seinnihluta nítjándu aldar)
Þá hló Astrid Lindgren og svaraði:
Hann Emil är kommunalråd i Mariannelund. (í bæjarráði í bænum Mariannelund, skammt frá Vimmerby).

Stytt og endursagt úr:
http://sv.wikipedia.org/wiki/Astrid_Lindgren
http://www.astridlindgren.se/index_1024.htm


0 ummæli:







Skrifa ummæli