fimmtudagur, nóvember 08, 2007

8. nóvember 2007 - Fjarstýringin að vinstrigræna eðalvagninum mínum


Ég skrapp bæjarleið í gær. Slíkt þykir venjulega ekki til frásagnar nema að þegar ég kom út úr búð og dró bíllyklana upp úr vasanum, varð fjarstýringin að bílnum eftir í vasanum.

Ég hafði veitt því eftirtekt fyrir nokkru síðan að komin var sprunga í gúmmíið sem heldur fjarstýringunni við lyklakippuna og nú þegar gúmmíið var endanlega farið, var ljóst að ekki myndi líða á löngu uns fjarstýringin færi sömu leiðina nema ég gripi til viðeigandi ráðstafana.

Minnug þess að fjarstýringin var ættuð úr Bílanausti, skrapp ég þangað sem ég hélt að Bílanaust væri, en þar var þá ekkert Bílanaust lengur, heldur var verslun Neins komin þar í staðinn. Er inn var komið virtist allt með svipuðum ummerkjum og síðast er ég kom þangað inn, það er þegar Bílanaust var nýflutt á Höfðann úr Borgartúni. Þar inni var mér svo vísað á þjónustuverkstæði Neins við Funahöfða þar sem starfsmenn voru eldsnöggir að bjarga fjarstýringunni minni frá eilífri glötun fyrir örfáar krónur.

Og ég sem hélt að Neinn væri bensínstöð eða fjölmiðlafyrirtæki á Akureyri, eða er það verslun með bókhaldsvörur?

Af hverju finna þeir ekki betra nafn á þetta fyrirtæki? Til dæmis má kalla bensínstöðvarnar Bílanaust sem ætti ágætlega við rétt eins og við gömlu góðu bílabúðina.


0 ummæli:







Skrifa ummæli