mánudagur, desember 10, 2007

10. desember 2007 - Misnotkun veikindadaga!

Þegar ég var í skóla þótti aukavinna með skóla vera hið besta mál og því meiri aukavinna, því betra. Þá þurfti ekki að eltast við námslán eða aðra óáran sem þurfti svo að dragnast með í mörg ár eftir að skóla lauk.

Einhverju sinni er ég var í Vélskólanum, skrapp ég í lausaróðra í páskafríinu á bát suður með sjó. Ekki fór allt eins og ætlast var til því fyrsta róðurinn leið mér alveg hræðilega, verkjaði í allan kroppinn, með höfuðverk og illa sjóveik þrátt fyrir langa reynslu á sjó. Ég harkaði samt af mér og beit á jaxlinn og skilaði dagsverkinu eins og ætlast var til af mér. Daginn eftir komst báturinn ekki úr höfn sökum flensu sem herjaði á áhöfnina. Þá var ég farin að hressast.

Í fréttum ríkisútvarpsins á sunnudag hafa birst fréttir af rannsókn á misnotkun á veikindarétti Íslendinga. Þar kemur fram að landinn vinnur sér frekar til óbóta en að kvarta yfir lasleika. Því er ekki um misnotkun að ræða. Þessi rannsókn var reyndar óþörf því þessi staðreynd hefur lengi legið fyrir. Það er þá helst að mánudagsveiki hafi gert vart við sig meðal yngsta hluta þjóðarinnar, en þó í minni mæli en gengur og gerist meðal flestra annarra þjóða.

Þegar ég flutti til Svíþjóðar var heilbrigðisástand sænsku þjóðarinnar slíkt að ráða þurfti fjóra menn í hver þrjú störf. Nokkrum árum síðar var verulega hert á veikindaréttinum þannig að fyrsti dagurinn í veikindum var launalaus. Um leið batnaði heilsa þjóðarinnar til mikilla muna. Síðar var rætt um að fjölga launalausum veikindadögum í tvo, væntanlega í því skyni að bæta heilsuna enn frekar, en ekki veit ég hvort af því hafi orðið.

Fyrrum vinnufélagi minn á Íslandi var einhverju sinni orðinn svo máttfarinn í vinnunni að hann læddist til að leggjast útaf um stund í vinnutímanum í tvígang sama daginn. Um kvöldið veitti dóttir hans því athygli hve hann var orðinn fölur og rak hann til læknis og var hann umsvifalaust lagður inn á spítala, enda orðinn mjög blóðlítill vegna innri blæðinga. Hann náði góðri heilsu á stuttum tíma og mætti til vinnu fljótlega eftir spítaladvölina.

Það hafa heyrst raddir um að herða þurfi veikindareglurnar á Íslandi. Ég held að það yrði til alvarlegs skaða fyrir þjóðfélagið allt.


http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item181495/


0 ummæli:







Skrifa ummæli