mánudagur, desember 24, 2007

24. desember 2007 - Friðargangan 2007

Ég rölti niður Laugaveginn á Þorláksmessu í friðargöngu ársins. Slíkt þykir ekki merkilegt þegar ég á í hlut því ég hefi mætt reglulega undanfarin ár. Um leið hefi ég veitt því athygli að gömlu góðu byltingarsinnunum fer fækkandi á meðan yngri friðarsinnum fer fjölgandi. Kannski ber bara minna á byltingarsinnunum þótt þeir séu orðnir öllu íturvaxnari en 1968.

Þegar friðargangan er orðin jafnfjölmenn og nú á sér stað, má spyrja sig þess hvort opin friðarkerti séu ekki að verða friðarspillir á þeirri hátíðarstundu sem friðargangan er? Ég þurfti sífellt að vera á varðbergi gagnvart fólki sem var að sveifla kertunum sínum og halda mig eins fjarri þeim og kostur var. Ég hitti gamlan bekkjarbróður minn úr Gaggó, sjálfan Árna Pétur Guðjónsson leikara; gortaði hann yfir því að hafa ekki fengið á sig eina einustu vaxslettu í þetta sinn, annað en í fyrra og árið áður. Tveimur mínútum síðar hafði hann fengið væna slettu af kertavaxi á fötin sín.

-----oOo-----

Svo fá allir bloggvinir mínir og hinir líka sem ennþá nenna að lesa bloggið mitt, bestu óskir um gleðileg jól.


0 ummæli:Skrifa ummæli