laugardagur, desember 22, 2007

22. desember 2007 - Þar brást vitið

Eins og fólk veit sem þekkir mig, hefi ég mikinn áhuga fyrir spurningakeppnum af ýmsu tagi og get látið öllum illum látum ef einhverjir bjánar svara einföldustu spurningum vitlaust eða út í hött.

Á föstudagskvöldið var spurningakeppni í sjónvarpinu og í lokin kom spurningin hvenær Mussólini hefði orðið forsætisráðherra Ítalíu. Liðið sem átti að svara, svaraði að sjálfsögðu út í hött og færðist þá svarrétturinn yfir til Garðbæinganna og þar greip túlípaninn spurninguna á lofti og sagði að það hefði verið nítjánhundruðtuttugu og eitthvað.

“Segðu bara 1923” öskraði ég á sjónvarpstækið mitt og Vilhjálmur fékk hugskeyti frá mér og nefndi árið 1923.
“YESSSSSSSSSSSSSSSSSSSS” öskraði ég á sjónvarpið mitt og barði í borðið svo kisurnar földu sig undir sófa.

“Nei það var vitlaust,” sögðu þá Simmi og Þóra, “það var 1922.”

Eins gott að ég var ekki látin taka þátt í þessari spurningakeppni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli