sunnudagur, desember 16, 2007

16. desember 2007 - Breyttar jarðarfarir

Ég á í höndunum lítinn bækling upp á 12 síður auk kápunnar og var honum dreift við jarðarför Ingvars Gudmundson í Kanada í maí 2004. Í þessum bæklingi eru nokkur uppáhaldsljóð Ingvars sem leikin voru við jarðarförina, minningarorðin sem flutt voru á sex blaðsíðum, sálmarnir og nokkrar myndar frá hinum ýmsu tímum í ævi Ingvars og Pálínu konu hans, en þau voru alíslensk að ætterni þótt bæði væru fædd og uppalin i Kanada

Ég hefi veitt því athygli að nú er byrjað á að hverfa frá hinum gömlu, íhaldssömu og alltof sorglegu jarðarförum sem áður voru nánast algildar á Íslandi. Sumar jarðarfarir eru vissulega þess eðlis að sorgin ræður ríkjum, sérstaklega þegar fólki er kippt yfir landamæri lífs og dauða í blóma lífsins, en flestar eru þó til að minnast fólks sem kveður okkur að aflokinni langri ævi. Það er þó engin ástæða til að láta gamla sálma gegnumsýra hugann á efsta degi hins látna í stað þess að láta minninguna um hinn látna lifa áfram með okkur.

Nú er farið að örla á því að formálinn að minningargreinum er farinn að birtast í bæklingi sem dreift er við jarðarfarir. Það er vel og þá er ekki verra að hafa fleiri myndir af góðum stundum í lífi hins látna en þá sem birtist með dánartilkynningunni í Morgunblaðinu.

Þegar ég sá fyrst bæklinginn um Ingvar Gudmundson ákvað ég að geyma hann því þarna var komin jarðarför að mínu skapi þar sem hinn látni var í sviðsljósinu en ekki sálmarnir. Börnin mín vita svosem ágætlega hvaða lög á leika við jarðarförina mína, en ætli ég verði ekki sjálf að semja minningarorðin um mig. Það þekkir mig víst enginn betur en ég sjálf.

-----oOo-----

Í dag á afmæli Gylfi Pálsson sem oft var kallaður Pústmann í gamla daga. Hann getur því ekki lengur sagst vera 64. Megi hann lengi lifa og vil ég senda honum hamingjuóskir í tilefni dagsins.


0 ummæli:Skrifa ummæli