laugardagur, desember 29, 2007

29. desember 2007 - Ísland eða Írland?


Ég fékk bréf með póstinum í gær. Það þykir kannski ekkert merkilegt á þessum tímum jóla og nýjársóska, en þetta bréf var í plasti og kom frá Írlandi.

“Jæja, er nú að koma jólakveðja frá Philippu vinkonu minni í Dublin,” hugsaði ég með mér og opnaði bréfið.

Bréfið var ekki frá Philippu. Það hafði verið sent til mín frá Nýja-Sjálandi eftir miðjan nóvember, en póstþjónustan á Nýja-Sjálandi augljóslega ruglað Íslandi saman við Írland og því sent bréfið þangað. Írarnir frændur vorir vissu ekki um neina Reykjavík á Írlandi og því sendu þeir bréfið áfram rétta leið á ætlaðan ákvörðunarstað. Eitthvað voru umbúðirnar orðnar ræfilslegar eftir rúmlega mánaðarvolk um heiminn, en innihaldið skilaði sér óskemmt í hús.

Ég vona að bókin sem ég pantaði mér frá Danmörku nokkru fyrir jól hafi ekki lent í viðlíka hremmingum.

-----oOo-----

P.s. Ég er að velta einu fyrir mér. Eitt leikhúsið frumsýndi páskaleikritið sitt á föstudagskvöldið. Er það ekki dálítið snemmt að sýna Jesus Christ Superstar á jólunum? Mér finnst það vera eins og að flytja Heims um ból í júlí.


0 ummæli:Skrifa ummæli