miðvikudagur, desember 05, 2007

6. desember 2007 - Mengun í Varmá?

Ég ætla ekki að byrja á langloku um klórslysið í Varmá í Hveragerði. Slík slys eru slæm og ég harma slíka atburði. Það er hinsvegar annað sem ég er að velta fyrir mér og það er annarskonar mengun.

Varmá í Hveragerði, rétt eins og Varmá í Mosfellssveit og fleiri, voru volgar frá því löngu fyrir upphaf byggðar á Íslandi. Þær drógu nafn sitt af heitu vatninu sem rann í þær þar til á síðustu árum þegar farið að var að nýta jarðhitann og þær kólnuðu niður. Því voru hinar volgu ár náttúrulega volgar. Að vísu get ég ekki séð að Varmá í Hveragerði hafi kólnað alveg niður þar sem mér sýnist að talsvert af hveravatni renni enn í ána.

Allt í einu er farið að stunda fiskeldi í þessum ám. Það hlýtur að vera nýtilkomið því vart hefur hálfsoðinn fiskurinn vaxið og dafnað í hveravatninu. Nú þegar rekið er upp ramakvein vegna þess að einhverjir fiskar hafa drepist, má þá ekki álykta sem svo að fiskur í þessum ám sé mengun, þ.e. breyting af mannavöldum frá náttúrulegu rennsli ánna?

Ég þarf engan besservisser til að svara mér. Fólk verður einfaldlega að svara hver fyrir sig og í hjarta sínu. Þar sem mér koma svör fólks ekkert við í þessu sambandi, er óþarfi að svara mér í athugasemdakerfinu.


0 ummæli:Skrifa ummæli