föstudagur, desember 21, 2007

21. desember 2007 - Hvert getum við hin farið?

Á fimmtudagskvöldið var sagt frá því í fréttum að pólskir verkamenn væru farnir í jólafrí heim til Kraká, búnir að fá yfir sig nóg af rigningu og roki hér uppi á Íslandi. Eitt augnablik fylltist ég öfund en ekki lengi.

Þetta haust hefur verið andstyggilegt í veðufarslegu tilliti, svo andstyggilegt að síðustu tvo dagana hefi ég fremur kosið að fara á bílnum í vinnuna þessa nokkur hundruð metra sem ferðin tekur, allt vegna rigningar og roks og til þess að sleppa því að skilja eftir mig rennblauta slóðina hvar sem komið er innanhúss. Hrafnhildur jólakisa hefur ávallt kosið að fara út á morgnanna en verið fljót að snúa við og kúrir nú undir sæng. Þá hafa stormarnir fremur verið metnir eftir fjölda handklæða til að þurrka upp innan við svaladyrnar en metrum á sekúndu eða vindstigum. Sjálf er ég farin að laumast til að kíkja á auglýsingar frá ferðaskrifstofum og flugfélögum vitandi að ég kemst ekkert, ef ekki vegna vinnu, þá vegna skorts á aurum.

Eins og svo oft áður læt ég hugann reika aftur í tímann, öll þau skipti sem ég var fjarri átthögunum á jólum, ýmist úti á sjó eða í höfnum erlendis, svo ekki sé talað um árin sem ég bjó í Svíþjóð sem var um leið einmanalegasti tíminn hjá mér þar í landi þrátt fyrir gott viðurværi að öðru leyti. Jólin í Svíþjóð voru bara ekki sama og jólin á Íslandi þar sem ættingjar og vinir þurftu að sætta sig við rok og rigningu.

Ég er hætt að öfunda Pólverjana sem voru að halda heim í jólafrí. Ég þarf ekkert að öfunda þá. Ég er heima hjá mér þessi jólin og er að auki í vaktafríi á aðfangadag og jóladag.

Það er ég sem er öfundsverð af hlutskipti mínu :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli