fimmtudagur, desember 13, 2007

13. desember 2007 - Dýrkeypt málverk

Um daginn komst ég yfir málverk af Snæfellsjökli séðan frá sjónarhóli þeirra sem búa í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Þótt ég hafi einungis þurft að greiða lítið fyrir málverkið, fann ég hvernig það kallaði á mig rétt eins og Snæfellsjökull gerir og minnug forfeðra minna sem stunduðu fiskveiðar í námunda við Jökulinn, varð ég að finna málverkinu réttan stað á heimilinu.

Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að snúa öllu á annan endann, breytti gömlu borðstofunni úr bóka/vinnuherbergi í borðstofu og flutti bókasafnið og vinnuaðstöðuna inn í stofu. Ég sá strax að ég yrði að mála á bakvið bókaskápana svo það var hlaupið út í Múskó og keypt málning. Síðan bæti ég við einni einingu af Billy bókaskápum til þess að þekja einn vegg með bókum. Nóg er víst til af bókunum hjá mér, misvel lesnar en flestar að gagni.

Það er komin rúm vika síðan ég byrjaði að breyta og enn sér ekki fyrir endann á breytingunum. Ég get þó huggað mig við að Snæfellsjökull er kominn á sinn stað við endann á borðstofuborðinu og að kisurnar mínar eru aðframkomnar af skorti á athyglissýki.

Kosturinn við breytingarnar er þó sá að ég hefi rutt svo rækilega til í bókahillunum.


0 ummæli:Skrifa ummæli