fimmtudagur, desember 20, 2007

20. desember 2007 - Jólalögin

Einhverju sinni á mínum yngri árum er legið var í höfn nærri New York skaust ég í bæinn að kaupa jólagjafir og eignaðist í leiðinni hljómkassettu með þeim Dolly Parton og Kenny Rodgers þar sem þau sungu saman jólalög. Ekki veitti af, því höfðum ekki heyrt í útvarpi öðruvísi en með skruðningum svo mánuðum skipti á meðan við vorum að sigla á milli Evrópu og Bandaríkjanna og kassettutækið því einasti möguleikinn á að geta hlustað á tónlist á ferðum okkar. Síðan þetta var, hefur þessi kassetta ávallt verið í uppáhaldi hjá mér.

Einstöku jólalög hafa oft komist nærri hjartanu þegar líður að jólum allt frá því Haukur söng um Sigga á síðum buxum og Sollu á bláum kjól, síðar Ómar með vísur um Gáttaþef og félaga. Á árunum um 1980 var það Ragga Gísla, en síðan man ég fá lög ef frá er talin kassettan með Dolly og Kenny. Að vísu er allnokkur fjöldi erlendra laga sem heillar mig, þá helst eldri jólalögin eins og White Christmas og lagið um hann Rúdolf. Þau lög minna mig þó fremur á verslunarferðir í erlendum stórborgum dagana fyrir jól. Það var svo löngu síðar og eftir að ég flutti heim aftur frá Svíþjóð, sem Borgardætur hrifu mig með söng sínum og er diskurinn þeirra jafnframt fyrsti geisladiskurinn sem ég eignast með jólalögum.

Á síðustu árum hefur svo Baggalútur átt aðventuna og jólalögin fyrir jólin auk þeirra sem áður er getið, en auk þeirra er texti lagsins Úti á sjó með áhöfninni á Kleifarberginu ávallt grípandi dagana fyrir jól.

Fyrir tveimur árum fannst mér kominn tími til að endurnýja kassettuna með Dolly og Kenny og varð ég fyrir vonbrigðum hvað eitt lag snerti. Heimsumból var horfið og í staðinn var komið eitthvert lag sem sem ég þekkti ekki.


0 ummæli:







Skrifa ummæli