föstudagur, desember 14, 2007

14. desember 2007 - Mér þykir vænt um Kana!

Þótt ég hafi vissulega gengið Keflavíkurgöngur gegn herstöðvum og fyrir friði í heimi hér, hefur mér ávallt þótt Bandaríkjamenn yndislegt fólk heim að sækja. Ég minnist þess þá sérstaklega að á árunum eftir 1970 er ég hóf fyrst að sigla til Bandaríkjanna að ég leit inn á krá sem var rekin af þeldökkum og fyrst og fremst fyrir þeldökka. Er ég og skipsfélagar mínir birtumst inni á kránni varð uppi fótur og fit, hvern djöfulinn við værum að ybbast upp á þeirra krá? Um leið og fólkið þar inni áttaði sig á að við værum ekki hvítir Bandaríkjamenn heldur Íslendingar vorum við umsvifalaust tekin í sátt því eins og einn þeldökkur gesturinn útskýrði fyrir mér; þeirra óvinir væru ekki hvítir menn heldur hvítir Bandaríkjamenn.

Þegar ég heyrði af niðurlægjandi framkomu bandarískra yfirvalda gagnvart íslenskri konu í New York fór ég að velta þessum hlutum fyrir mér. Þá mundi ég eftir því að þótt varasamt væri að stríða yfirvöldum í Massachusetts eða Virginia, voru yfirvöld þar þó öllu mannlegri en yfirvöldin í New York/New Jersey. Alltaf var það Strandgæslan (USCG) í New York sem var til vandræða.

Einhverju sinni minnist ég þess er einn stýrimaðurinn hjá okkur og áhugamaður um skotveiðar, hafði keypt sér efni til haglaskotagerðar í Norfolk og ætlaði hann sér að taka efnið með sér til Íslands. Er komið var til New York var allt efnið gert upptækt í samræmi við lög frá 1942 um bann við útflutningi á skotfærum vegna styrjaldarinnar þar sem andvirði efnisins fór yfir 10$. (eða voru það 5$?)

Þá má ekki gleyma því er skipið var kyrrsett að vori til vegna þess að haffærisskírteinið gilti til 3. október 1981 (skrifað 3.10.1981), en USCG las dagsetninguna sem March 10, 1981 (skrifað 3.10.1981) og stoppuðu skipið. Aldrei hafði verið gert veður út af slíku í Norfolk. Það tók sólarhring að fá leiðrétt haffærisskírteini frá Íslandi.

Einhverju sinni vorum við kyrrsett í nokkra klukkutíma í New York vegna þess að sjókortin fyrir New York voru ekki stimpluð af USCG. Það kom nýtt og stimplað sjókort um borð og við fengum að halda úr höfn. Eftir brottför fór skipstjórinn að skoða sjókortin og reyndist nýja sjókortið vera úr sömu prentun og það sem fyrir var um borð. Það var bara enginn stimpill frá USCG á því sem fyrir var um borð.

Þar sem þessi pistill er áróður gegn USCG í New York, ætla ég ekkert að nefna atvikið þegar tollurinn í Norfolk gerði íslenskan dagblaðabunka upptækan af því að mynd af saumsprettu á hné á sundfötum Sóleyjar Tómasdóttur var á bls 3 í DV, (lygi, það var ekki mynd af sundfötum Sóleyjar Tómasdóttur, það var mynd af fáklæddri íslenskri stúlku í blaðinu og því var allur íslenski dagblaðabunkinn gerður upptækur sem klám) en hann hafði verið ætlaður íslenskri fjölskyldu í Norfolk. Síðan skrapp einhver í bæinn og keypti þau svæsnustu klámrit sem hægt var að fá á þeim tíma. Hljómar eins og tvískinnungur.

Mér þykir samt vænt um Bandaríkjamenn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli