mánudagur, desember 31, 2007

31. desember 2007 - Samantekt ársins 2007

Áður en ég hef skrifin langar mig til að þakka góðar kveðjur sem ég fékk frá fjölda fólks á afmælinu mínu.

-----oOo-----

Á þessum tímamótum sem áramótum er sjálfsagt mál og gott að horfa um öxl og fara í naflaskoðun og velta því fyrir sér hvað fór vel og hvað fór illa á árinu sem er að líða. Ekki er ætlunin með þessum pistli að spá fyrir um framtíðina enda nóg að gera slíkt á nýju ári, en reyna þess í stað að meta árangur síðustu 365 daga.

Mér tókst að komast úr stjórn Ættfræðifélagsins á árinu sem er að líða. Ég hefi þó unnið nokkuð að samnorrænum málefnum innan félagsins, en lítið komið að öðrum málum. Þess í stað fóru fyrstu mánuðir ársins í vinnu við undirbúning að stofnun félagsins Trans-Ísland en um leið gætti ég þess að vera utan stjórnar er fyrsta formlega stjórn félagsins var kosin á aðalfundi þess í apríl. Ætlunin var sú að halda mig einvörðungu að stjórnarstörfum í Transgender Europe, en þar brást mér bogalistin með því að ég þurfti að greiða allan kostnað við ferðir úr eigin vasa og því urðu setnir stjórnarfundir færri en ég hefði kosið.

Ég skipti ekki um bíl á árinu. Sá gamli dugði allt árið og mun vonandi duga eitt ár enn. Ég er þó farin að láta mig dreyma um nýjan bíl. Kannski ég láti slíkan lúxus eftir mér á árinu 2009, varla fyrr.

Þá var ég dugleg að ganga á fjöll fyrrihluta sumars, fór nokkrum sinnum á Esjuna og Vífilsfell og einu sinni á Akrafjall og Hengil. Þegar ég var loksins að komast í gott form fór að rigna og ég ákvað að bíða af mér rigninguna. Síðan eru liðnir margir mánuðir og enn rignir og ég fitna bara eins og púkinn á fjósbitanum.

Það fjölgaði um einn erfingja á árinu og farið í þrjár jarðarfarir, en að auki kom ég mér hjá því að mæta í tvær þótt hinir látnu hefðu átt betra skilið.

Sjálfsævisagan sem átti að verða metsölubók ársins er enn óútgefin, en peningarnir sem áttu að notast til að endurnýja fataskápa heimilisins fóru í sameign hússins, endurnýjun á þvottahúsi, lagfæringar á rafmagni í sameign og nýjar skotheldar hurðir inn í íbúðirnar. Fátt annað skeði á persónulega sviðinu.

Það voru haldnar alþingiskosningar á árinu eins og ég hafði spáð. Sömuleiðis hafði ég spáð því að Framsóknarflokkurinn myndi ekki þurrkast út í kosningunum og sú spá stóðst einnig. Silvía Nótt vann ekki Júróvisjón fremur venju, en loks erum við komin með sigurlag sem mun vinna í vor.

Af öðrum málum er þess helst að geta að Michael Schumacher hélt áfram að vera hættur í góðakstri og get ég nú hætt að horfa á kappakstur með góðri samvisku. Þá situr Halifaxhreppur áfram í kvenfélagsdeildinni en Sameining Mannshestahrepps vann sig upp um eina deild enn á árinu sem er að líða.

Hundur ársins heitir Lúkas og bloggari ársins heitir Bolur Bolsson. Það hafa margir reynt að komast í bolinn hans í haust en engum tekist það með sóma. Þó skilst mér að einhver Gerður sé sú sem helst kemst með tærnar þar sem hann hafði hælana þessa viku sem Bolur Bolsson skemmti sér á Moggabloggi á kostnað Moggabloggaranna sjálfra. Samt finnst mér Gerður ekki eins skemmtileg og Bolurinn enda drakk hann Carlsberg í morgunmat.

Ég læt þetta nægja að sinni og minni á nýjársloforðin, en ég mun afhjúpa mín að kvöldi nýjársdags.

-----oOo-----

Hver verður númer 100.000 á Blogspotinu mínu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli