sunnudagur, desember 23, 2007

23. desember 2007 - Gengur vel að jólast

Ég skrapp í bæinn á laugardag og keypti níu jólagjafir á einum klukkutíma og þá eru eftir tvær. Síðan skrapp ég í miðbæinn og ætlaði að hlusta á upplestur Ragnhildar og Guðjóns í Iðu, en þá hringdi síminn og mér boðið í kaffi og kökur suður í Hafnarfjörð. Sælkerinn ég gat auðvitað ekki staðist mátið og flýtti ég mér út í bíl og suðureftir.

Ferðin til Hafnarfjarðar gekk vel. Allir vinstrisinnarnir í umferðinni voru úti að aka og ég gat keyrt nánast hindrunarlaust á hægri akreininni alla leiðina en umferðin á vinstri akreinni var öllu hægari. Eftir gott atlæti í Hafnarfirði ók ég áleiðis heim, en kom við í Mjóddinni og ætlaði að kaupa jólagjöf númer tíu, en hún var uppseld. Um leið komst ég að því að Einar Már Guðmundsson rithöfundur er rétthendur eins og ég og Clinton og Leonardo da Vinci.

Síðan var farið heim að pakka jólagjöfum. Ekki lengi gert sem lítið er.

-----oOo-----

Það er svo í góðu lagi að nefna að friðargangan 2007 leggur af stað frá Hlemmi klukkan 18.00 á sunnudag og verður gengið niður Laugaveg að venju. Ef einhver skyldi ekki vera viss, þá er gengið nánast sömu leið og Gay Pride. Í framhaldi af friðargöngunni er tilvalið að njóta mannlífsins í miðbænum og kíkja inn á einn og annan samkomustað í leiðinni (til að pissa?). Sjálf mun ég reyna að kíkja inn á Næsta bar enda búin að margsvíkjast um að koma þar við í haust.

Ég á ekki von á því að sonur Davíðs verði í göngunni þótt skammt sé til jóla þar sem fagnað verður fæðingu eins niðja Davíðs.


0 ummæli:Skrifa ummæli