mánudagur, desember 03, 2007

4. desember 2007 - Vondir karlar, Súdanir!


Skelfing er að heyra um dóm súdanskra yfirvalda yfir breskri kennslukonu sem lofaði nemendum sínum að kalla bangsann sinn Múhameð. Þarna var kominn hópur sem allur hefði getað orðið að miklum fyrirmyndum í múslímskum kennisetningum ef rétt hefði verið á málum haldið. Að auki hafa hundruð milljóna manna sem heita Múhameð getað fundið fyrir stolti yfir nafngiftinni. Eins gott að kennslukonunni var sleppt og hún send hið bráðasta úr landi áður en múslímskir bókstafstrúarmenn gerðu hana að píslarvætti.

Sjálfri myndi mér þykja mikill heiður ef einhver kallaði bangsann sinn í höfuðið á mér og mín vegna mega allir heimsins bangsar heita Anna. Eiginlega allir nema tveir, það er Múhameð bangsi í Súdan og sá sem hér er gerður að umtalsefni:

Rétthugsandi vinafólk mitt á yngri árum átti son sem hlaut gott og kærleiksríkt uppeldi. Þegar drengurinn var lítill eignaðist hann tuskubangsa og að sjálfsögðu kallaði hann bangsann sinn nafni sem vakti athygli, jákvæða eða neikvæða eftir atvikum, en alveg örugglega athygli, svo mikla að ég man enn nafnið á bangsanum, þremur áratugum síðar.

Þegar strákur fullorðnaðist þótti hann mælskur mjög og komst fljótt í forystuhóp innan ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins og síðan Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs. Maðurinn, sem ég ætla ekki að nafngreina, er enn mjög áberandi í þjóðlífinu og baráttunni á vinstri væng stjórnmálanna og verður það vonandi um langa framtíð.

Ég spyr ykkur sem lesið þetta. Hefði stráksi orðið jafn einlægur baráttumaður á vinstrivængnum ef foreldrarnir hefðu bannað honum að nefna bangsann sinn Stalín?


0 ummæli:Skrifa ummæli