mánudagur, september 10, 2007

10 september 2007 – Öfgafólk í umhverfismálum!

Eins og allir lesendur mínir vita er ég talin með verstu umhverfissóðum, ek um á sjálfskiptum og eyðslufrekum Subaru Legacy, fell í trans ef ég heyri minnst á álver og míg næstum á mig af hrifningu yfir Kárahnjúkavirkjun og öðrum stórkostlegum atvinnutækifærum.

Fyrir nokkru síðan var mín vika í ruslinu í blokkinni þar sem ég bý og veitti ég því athygli að komin var vond lykt í ruslageymsluna. Við leit að orsökum kom í ljós að ein tunnan var með sprunginn botninn og þar hafði lekið einhver óþverri niður sem orsakaði að þrífa þurfti ruslageymsluna og fjarlægja leku tunnuna.

Það var kallað til fundar í húsfélaginu. Ekki bara vegna þessarar einu tunnu, heldur vegna fjölda annarra mála sem þurfti að ræða í húsfélagi þar sem samkomulag er gott og þar sem íbúarnir eru allir sammála um að gera morgundaginn betri en gærdaginn. Á fundinum var samþykkt að fækka um eina svarta ruslatunnu en taka þess í stað eina græna tunnu fyrir flokkað sorp og eina bláa fyrir dagblaðapappír.

Á sunnudagskvöldið voru nokkrir íbúanna að ræða óformlega um enn frekari framkvæmdir í stigaganginum þegar einn íbúinn sást læðast út frá sér og ætlaði að setja ruslið í sorprennuna. Rak þá einhver augun í að glitti í tóma mjólkurfernu í ruslapoka íbúans og var honum snarlega gert að snúa við og flokka sorpið áður en hann henti því.

Íbúinn sem flutti í húsið fyrir ári síðan er örugglega farinn að sjá eftir því að hafa keypt íbúð í húsi með samansafni öfgafólks í umhverfismálum þar á meðal mér sem ek um á vinstrigrænum Subaru.

Þeir kalla mig umhverfissóða!


0 ummæli:







Skrifa ummæli