miðvikudagur, september 12, 2007

12. september 2007 - Leikurinn fór illa!!!Í gærkvöldi ætluðu mínir menn í Sameiningu Mannshestahrepps (FC United of Manchester
) að gjörsigra smáliðið Clithertoe í áttundu deild enska boltans á hraðri leið upp stigann í átt að úrvalsdeildinni þar sem gamla móðurfélagið Manchester United bíður örlaga sinna skjálfandi á beinunum. Þúsundum saman þyrptust stuðningsmenn liðsins okkar á völl andstæðinganna sem er einhversstaðar á milli Blackburn og Siglufjarðar og mættu þar nokkrum lafhræddum stuðningsmönnum Clithertoe sem hímdu undir vegg og þorðu sig hvergi að hræra fyrir ofureflinu. Og svo hófst leikurinn.

Kapparnir okkar voru fljótir að skora fyrsta markið og sýndu hvert framhaldið yrði, en fyrir einhvern klaufaskap tókst andstæðingunum að svara fyrir sig skömmu síðar með afar ljótu marki, svo ljótu að þess verður minnst um ókomna tíð, en þess ber að geta að okkar besti maður, Stuart Rudd, hefur verið í leikbanni nokkra síðustu leiki þrátt fyrir einstaklega prúðan leikferil. Okkar menn gerðu sig klára til að raða inn mörkunum þótt hinir pökkuðu í vörn eins og Mörlandinn gegn Márum á dögunum, komust í yndislegt færi, hlupu að boltanum sem átti að fara beint í bláhornið hjá andstæðingunum, gjörsamlega óverjandi fyrir markmannsræfilinn, en þá ....

.... slokknuðu öll ljós á vellinum og boltinn týndist með marki og markmanni.

Þegar í stað var kallað í Þórð rafvirkja (sem er ekki sonur Guðjóns rafvirkja) og eftir að hafa skoðað aðstæður um stund tilkynnti hann að það þyrfti að fá krana og skipta um allar perurnar í flóðlýsingunni og slíkt tæki minnst þrjá daga. Ákvað þá dómarinn að flauta leikinn af og sendi allan áhorfendaskarann heim enda óttaðist hann um öryggi allra þriggja stuðningsmanna Clithertoe auk leikmannahópsins ef hinar þúsundir prúðra stuðningsmanna FC United of Manchester tækju að ókyrrast í biðinni eftir að leikurinn hæfist aftur.

Í sakleysi mínu spyr ég hvernig leikur fer ef hann er flautaður af eftir að seinni hálfleikur er hafinn?

-----oOo-----

Svo fær 12. september hamingjuóskir með afmælið.


0 ummæli:Skrifa ummæli