fimmtudagur, september 20, 2007

20. september 2007 - Miðborgarvandamál


Í fyrrasumar kom ég til Manchester á heitasta tíma sumarsins. Um leið og ég hafði hent töskunum inn á hótel fór ég beint inn á Canal Street og hitti þar fólk sem ég hafði mælt mér mót við og þurfti nauðsynlega að fá mér einn öl eftir ferðina. Af því að fólkið sem ég hitti sat utandyra, var ölið afgreitt í plastmálum, ekki í gleri. Ef ég vildi drekka ölið úr glasi varð ég líka að drekka það innandyra. Í vor var ég í Amsterdam á Queensday. Þar var sama sagan nema að það var skilagjald á plastglösunum, tvær evrur fyrir að skila þeim tómum til baka.

Þegar ég var ung og falleg lokuðu allir skemmtistaðir í Reykjavík klukkan eitt á föstudagskvöldum og tvö á laugardagskvöldum. Fólk þurfti að vera komið inn fyrir klukkan hálftólf og hætt var að afgreiða brennivínið klukkan hálf eitt á föstudagskvöldum og hálftvö á laugardagskvöldum.

Skemmtistaðirnir voru víða. Glaumbær við Fríkirkjuveg, Sigtún við Austurvöll og Alþýðuhúskjallarinn neðst við Hverfisgötu. Aðrir helstu staðir voru Klúbburinn við Borgartún, Röðull við Skipholt og Þórskaffi við Brautarholt. Auk þeirra voru hótelin og salir þeim tengdir.

Það voru sífelld ólæti í íbúunum nærri Röðli. Þeir vildu losna við skemmtistaðinn úr nágrenninu. Að öðru leyti held ég að þessir fáu skemmtistaðir hafi verið að mestu leyti til friðs. Fólk hellti í sig eins miklu brennivíni og hægt var til að þurfa ekki að drekka eins mikið á staðnum og ef það var ekki ofurölvi þegar stöðunum var lokað, var haldið í næturteiti með hæfilegum skammti af slagsmálum í heimahúsum og afskiptum lögreglu af heimilishaldi í úthverfum Reykjavíkur.

Svo lagaðist ástandið. Fyrst var opnunartíminn rýmkaður og haft opið til klukkan þrjú á nóttunni. Ég man að ég kom eitt sinn á Sjallann á Akureyri og fannst nánast heimskulegt að þar var enn lokað klukkan tvö á laugardagskvöldi. Nokkrum árum síðar komu ölið og krárnar. Flennistóru skemmtistaðirnir á borð við Klúbbinn, Þórskaffi og Broadway í Mjódd lögðu upp laupana og ég flutti úr landi.

Einhverju sinni kom ég í heimsókn til Íslands og hreifst mjög af hinni sérstöku næturstemmningu, að sjá fullar götur af fólki á heimleið eftir skemmtanahaldið klukkan þrjú að nóttu. Þegar ég flutti svo heim sumarið 1996 var ástandið enn svona og sá ég það eitt slæmt við næturlífið að það var erfitt að ná í leigubíl heim. Skömmu síðar var afgreiðslutíminn gefinn nánast frjáls í stað þess að settar væru reglur misjafnan lokunartíma skemmtistaða og kráa. Það fannst mér synd að ekki væru settar sérreglur fyrir næturklúbba en að aðrar krár lokuðu klukkan þrjú eða í síðasta lagi klukkan fjögur.

Þótt ég hafi ekki reykt í mörg ár, held ég að reykingabannið hafi gert illt verra í Reykjavík. Nú verður fólk að fara út að reykja, en má ekki taka glösin með sér. Ekki hefi ég séð möguleika á að fólk fái að taka öl með sér í plastmáli eins og er leyfilegt í Amsterdam og Manchester. Þess í stað er fólki boðið upp á að reykja eða drekka, ekki hvorutveggja í senn. Nú situr fólk inni á kránum og tæmir glasið, fer svo út, hittir félagann fyrir utan, lendir á spjalli og þarf síðan að kasta af sér vatni. Þá er búið að loka eða biðröð til að komast inn aftur. Það er pissað í næsta húsasundi.

Nú vill lögreglustjórinn endurnýja gömul afskipti af heimilishaldi og sífelldum kvörtunum nágranna yfir næturpartíum á heimilum. Hann er strax farinn að hlakka til að kljást við nágranna margra lítilla skemmtistaða í úthverfum Reykjavíkur í stað þess að hafa allt á sama stað eins og Egill Vilhjálmsson hf auglýsti þegar ég var ung (ég er ennþá falleg og mun fallegri en áður).


Öll þessi “vandamál” sem ég hefi þulið upp eru smámál, reyndar svo lítil að einungis þarf að leita góðra lausna sem allir geta sætt sig við. Ég sendi tillögu að opnu pissiríi fyrir karla til Dags B. Eggertssonar í sumar og sem hann sendi áfram til framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar. Síðan hefur ekkert til þessarar tillögu heyrst og þykist ég vita að hún hafi verið talið óhæf fyrir karlmenn sem pissa alltaf framhjá. Ég er ekki með neina skyndilausn að hraðpissiríi fyrir konur.

Þá þarf einfaldlega að setja skýrari reglur um opnunartíma skemmtistaða, þeir ákveða fyrirfram hversu lengi þeir hyggjast hafa opið, veitingahús til eitt, krár til tvö eða þrjú eða fjögur um helgar. Sjálf er ég fyllilega sátt við að Næstibar sé opinn eins og nú er, til klukkan þrjú, því þá er ég yfirleitt komin heim og upp í rúm.

En ég held að það sé allt til þess vinnandi að vera ekki að endurvekja gamla fortíðardrauga með því að stytta opnunartímann um of og bjóða lögreglunni heim og að kljást við óeirðarseggi klukkan fimm og sex á morgnanna.


0 ummæli:Skrifa ummæli