þriðjudagur, september 04, 2007

4. september 2007 - Fólk er fífl

Nokkrum árum eftir að Sovétríkin hrundu og leystust upp í frumeindir sínar var ég á ferð í Riga höfuðborg Lettlands. Þar sem við vorum akandi um gömlu miðborgina í leit að bílastæði sá ég röð af slíkum stæðum og öll auð. Nei, þarna mátti ekki leggja. Þessi stæði voru í eigu Mafíunnar.

Mikil ramakvein heyrast nú á Moggabloggi frá fólki sem dirfist að mótmæla því að yfirstéttin mætti í seinna lagi á tónleika í Laugardalshöll í fyrrakvöld. Sumt af þessu fólk sem hefur hæst á Moggabloggi vegna málsins var ekki einu sinni á tónleikunum og veit ekkert hvað það er að tala um.

Það þýðir ekkert að væla. Þetta ágæta fólk í Baugur grúpp og Kaupthing grúpp og FL grúpp (skrifað FJ grúpp) og öllum hinum grúppunum á landið og þjóðina og miðin og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af einhverjum kommúnistaplebbum sem eiga allt sitt undir yfirstéttinni. Sumir þessara einstaklinga greiða líka svo mikla skatta að árlegur skattur nemur meiru en ævitekjur sumra þeirra sem kvarta mest. Ef plebbarnir ætla eitthvað að þenja sig, flytja þessi ágætu fyrirtæki úr landi og hætta að borga skatta á Íslandi. Er það kannski ætlunin með þessum kvörtunum þessara kommaplebba? Því skuluð þið bara halda ykkur saman og hneigja ykkur. Svo er líka hægt að leggja niður nokkur af fyrirtækjunum í eigu þessa ágæta fólks og þá fer þjóðin á hausinn.

Á árum áður var oft talað um bananaríki þar sem eitt til tvö prósent þjóða átti allt landið og fólkið sem í því bjó. Nú þarf ekki lengur að tala um aðrar þjóðir í þessu sambandi því örfáir einstaklingar eiga Ísland og hina aumu þjóð sem hér býr. Það þurfti ekki einu sinni byltingu að ofan og ekki heyrðist múkk í skrílnum meðan eignaupptakan átti sér stað.

Þessir örfáu, innan við eitt prómill af þjóðinni, eiga stóran hluta kvótans, miðin og flotann, mestallan matvörumarkaðinn, bankana, apótekin, fjöldann allan af jörðum, einhver bílaumboð og orkufyrirtækin bíða handan við hornið. Brátt verða Alcoa og Alcan hið einasta sem ekki er í eigu þessara örfáu einstaklinga.

Ef einhver dirfist að mótmæla eignaupptökunni er sá hinn sami þegar í stað kveðinn í kútinn með því að þessir einstaklingar borgi svo mikið í skatta og því má ekki styggja þá. Fáir þora samt að mótmæla því margir eru í vinnu hjá þessum örfáu einstaklingum og atvinnuöryggið því í hættu. Þvert á móti berjum við okkur á brjóst og bendum á Illum og Nyhedsavisen og West Ham og hreykjum okkur af því hve Íslendingar séu nú duglegir.

Ágúst Bogason styggði yfirstéttina með því að benda á ruddaskapinn í þessu pakki í Morgunblaðinu í dag. Sumir bloggarar tóku undir með honum, en munu svo þagna eins og endranær. Ég líka því fólk er fífl.

Byltingin lifi eða hvað?


0 ummæli:Skrifa ummæli