þriðjudagur, september 25, 2007

25. september 2007 - Of fáguð framkoma?


Ég kannast við mann sem hefur lent í skelfilegu sjóslysi. Þetta er ákaflega prúður maður og í alla staði hinn þægilegasti viðkynningar. En hann talar helst aldrei um erfiða lífsreynslu sína. Nýlega komst ég að því að fyrrum vinnufélagar hans vissu ekki einu sinni af hinni skelfilegu lífsreynslu kunningja míns.

Ég varð agndofa er ég heyrði lýsingar ungs þeldökks manns á voðaverkum þeim sem hann framdi er hann var yngri í Afríkuríkinu Sierra Leone sem barnahermaður. Þar sem ég sat í sjónvarpssófanum fannst mér óraunverulegt að horfa á unga manninn á skjánum lýsa biturri lífsreynslu sinni með jafnaðargeði á nánast óaðfinnanlegri ensku. Um leið var sagt frá nýútkominni bók um þessa lífsreynslu unga mannsins. Hann var ekki sá fyrsti.

Í fyrra minnir mig að ung þeldökk stúlka hafi lýst reynslu sinni í sjónvarpi er hún var innilokuð ásamt fáeinum öðrum konum og gátu þær sig hvergi hrært svo vikum skipti, vitandi að utan við dyrnar beið ekkert annað en nauðgun og dauði. Stúlkan lýsti biturri lífsreynslu sinni með jafnaðargeði og fágaðri framkomu. Svo var sagt frá nýútkominni bók.

Ef mig misminnir ekki var sagt frá ungri þeldökkri stúlku fyrir tveimur árum, stúlku sem var þvinguð til að giftast fullorðnum frænda sínum í Sómalíu, en náði að flýja og gerðist fyrirsæta. Hún kom sömuleiðis mjög vel fyrir og svaraði spurningum með jafnaðargeði og svo fylgdi bók í kjölfarið.

Ég gæti ekki gert þetta. Ef ég hefði gengið í gegnum álíka lífsreynslu og þetta ágæta fólk væri ég sennilega taugahrúga það sem eftir væri ævinnar, kannski eins og þýski kafbátavélstjórinn úr heimsstyrjöldinni síðari sem ég heyrði af og sem fór síðar yfir á sænskt flutningaskip. Hann þurfti að nota bleyju þegar hann svaf því hann pissaði alltaf undir í martröðum minninganna. Hann forðaðist að tala um stríðið við skipsfélaga sinn sem sagði mér frá honum rétt eins og kunningi minn sem áður er sagt frá. Þá má ekki gleyma Breiðavíkurdrengjunum sem brotnuðu í beinni er farið var að ræða öllu vægari lífsreynslu þeirra í æsku, jafnvel sá harðsvíraðasti í hópnum.

Þarna mætir ungt fólk í blóma lífsins í íslensku sjónvarpi, gullfallegt fólk með nánast óaðfinnanlega framkomu, allt komið frá svörtustu Afríku, talar nánast lýtalausa ensku og segir frá skelfilegri reynslu bernskunnar með jafnaðargeði og allt að leikrænum tilburðum. Ég ætla ekki að véfengja reynsluna sem þetta fólk er að lýsa, en einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að þetta séu allt leikarar. Reynslan sé einhverra sem eru ófær um að tjá sig svona stórkostlega.


0 ummæli:Skrifa ummæli