fimmtudagur, september 27, 2007

27. september 2007 - Ein lítil ljósapera


Það fór framljósapera í bílnum hjá mér fyrir nokkru síðan. Það var komið myrkur og rigning úti svo að þegar ég kom inn á bensínstöð, fékk ég mér kaffisopa á meðan starfsmaður skipti um peruna. Hann var eldsnöggur að verkinu og lipur. Greinilega toppþjónusta á þessum stað.

Fljótlega eftir þetta fékk ég á tilfinninguna að framljósin væru vanstillt. Þegar ég var á ferðinni í gær notaði ég því tækifærið og kom við í skoðunarstöð og bað skoðunarmanninn um að athuga ljósastillinguna hjá mér. Það var auðsótt mál og þegar ég hafði opnað vélarlokið kom hið sanna í ljós. Peran hafði verið þvinguð öfug í og sat alls ekki eins og hún átti að gera og fyrir bragðið lýsti framljósið meira upp en niður. Það tók hálfa mínútu að snúa perunni og koma henni fyrir á réttan hátt og prófa stillinguna og ég gat ekið í burtu í góðu skapi og án þess að eiga á hættu að fá kvartanir frá Flugmálastjórn.

Skoðunarmaðurinn sagði mér að þetta væri algengt að perurnar færu vitlaust í við þessar aðstæður, þ.e. þegar óreyndir starfsmenn á bensínstöðvum skiptu um perur í bílum hjá viðskiptavinunum. Það kom mér ekkert á óvart.


0 ummæli:Skrifa ummæli