fimmtudagur, september 06, 2007

6. september 2007 - Íslenskur hermaður kallaður heim


Markmið góðs hermanns í lífinu eru annað tveggja, að drepa eða verða drepinn.

Hún Valgerður ættingi minn Sverrisdóttir frá Lómatjörn (við erum báðar komnar í beinan kvenlegg frá Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit) setti ofan í við Ingibjörgu Sólrúnu flokkssystur mína í fréttatíma sjónvarpsins á miðvikudagskvöldið fyrir þá hræðilegu ákvörðun að kalla heim einasta íslenska hermanninn sem er á vegum íslenskra yfirvalda í Írak. Þótt ég vilji helst ekki tala illa um hana Valgerði mína (öfugt við aðra Framsóknarmenn), verð ég samt að játa að ég er henni ósammála í þetta sinn.

Einn íslenskur hermaður gerir lítið gagn þar sem hann er einn og yfirgefinn og innilokaður á bakvið múra inni á græna svæðinu í Bagdað. Einsamall getur hann ekki farið út og drepið einn eða tvo meðlimi andspyrnuhreyfingarinnar eða gert annan usla í liði óvinanna. Hann getur heldur ekki sinnt hinu mikilvæga atriði hernaðar sem er að láta drepa sig. Bæði er það óþægilegt fyrir hermanninn sjálfan og sárt fyrir ættingjana. Því getur hann fátt annað gert en að halda áfram að naga neglurnar. Þegar hann er að auki búinn að naga allar neglurnar á puttunum og langt kominn með táneglurnar, er fátt um fína drætti og því get ég ekki annað en stutt Sollu í því að kalla drenginn heim.

Öfugt við aðgerðarleysið sem felst í að vera tákn fyrir Ísland á stað sem hann er hataður og fyrirlitinn, er verk fyrir manninn að vinna hér á landi. Hann getur valið um störf sem hér finnast á hverju strái. Það vantar duglega verkamenn í uppskipun, lífsreynda strætisvagnsstjóra í Skagastrætó til að stytta Gurrí stundir á leið í vinnuna, laghenta trésmiði til að byggja upp brunnin hús við Austurstræti og það vantar leikskólakennara með útgeislun til að uppfræða ungviði þessa lands.

Munum að það er ávallt þörf fyrir góðan og myndarlegan hermann sem snýr heill heim rétt eins og hermanninn í ævintýri H. C. Andersen, þó ekki væri nema að hjálpa gömlum konum að sækja eldfærin þeirra.


0 ummæli:Skrifa ummæli