þriðjudagur, september 11, 2007

11. september 2007 - Tæknilegt afrek = fjöldamorð


Ég vil taka það fram í upphafi að ég get ekki með nokkru móti samþykkt fjöldamorð, ekki í neinu tilfelli né fyrir neinn málstað. Sama gildir um fjöldamorðin í New York 11. september 2001. Í mínum vinahópi eru það fyrst og fremst friðarmál sem eiga hug okkar allan og virðing fyrir manneskjunni á öllum stigum.

Árásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001 voru tæknilegt afrek. Það hafði áður verið reynt að sprengja aðra bygginguna en ekki tekist. Aðferðin sem beitt var, var ótrúleg og reyndar svo að fyrirfram hefði ég haldið að hún væri óframkvæmanleg. Þegar haft er í huga hvernig byggingar eru reistar í dag annarsvegar og hinsvegar hvernig flugvélar eru byggðar hefði ég afskrifað þann möguleika að hægt væri að fella tvær af voldugu byggingum heims í einu vettvangi með flugvélum sem stýrt er að þeim. Því datt mér helst til hugar er útsending útvarps var rofin og sagt frá því að flugvél hefði lent á World Trade Center, að hin veikbyggða flugvél hefði orðið að klessu utan á annarri byggingunni og allir farþegarnir farist. Mér duttu aldrei til hugar þau byssukúluáhrif sem fulllestuð risaþota á 900 kílómetra hraða hefur þegar henni er beint inn í bygginguna. Þegar flugvélin er að auki nánast þunglestuð af eldsneyti verða áhrifin enn meiri.

Flugræningjarnir 11. september 2001 þurftu að hafa til að bera geysimikla verkfræðiþekkingu. Þeir völdu sér stórar vélar fullar af eldsneyti sem fljúga þvert yfir Ameríku til að tryggja sér sem mestan eyðileggingarmátt og tókst það. Minni flugvélar hefðu valdið skaða en engu hruni turnanna.

Þessir flugræningjar voru engir bjánar. Þeir sönnuðu fyrir okkur hve illskan getur komið miklu í verk með litlum tilkostnaði. Hinn vestræni heimur þarf enn að blæða fyrir verk þeirra. Gífurlegar öryggisráðstafanir fylgdu í kjölfarið og sér ekki enn fyrir endann á þeim. Almenningur á Vesturlöndum er sá sem tapaði stríðinu gegn hryðjuverkum, nákvæmlega eins og ætlunin var hjá þeim sem skipulögðu flugránin.

Austur í Afganistan eða Pakistan situr Osama bin Laden í helli sínum og hlær að okkur fíflunum því hans næstu hryðjuverk munu koma okkur á óvart rétt eins og hryðjuverkin 11. september 2001.


0 ummæli:







Skrifa ummæli