fimmtudagur, september 20, 2007

20. september 2007 - II - Ég skal kenna ykkur að smygla...

.... sagði miðaldra maður sem kom eitt sinn í heimsókn um borð til okkar þar sem við lágum í höfn í Bandaríkjunum. Skipstjórinn okkar hló að gestinum og spurði hvað hann gæti kennt okkur, dæmdur maðurinn fyrir stærsta áfengissmygl Íslandssögunnar eftir fræga ferð með Ásmundi til Belgíu haustið 1967.

Reynsla þessa manns flaug í gegnum huga mér er ég fylgdist með sexmenningunum sem héldu blaðamannafund í morgun skreyttir eins og sex jólatré. Á blaðamannafundinum fluttu þeir okkur hálfkveðna vísu um fíkniefnasmygl sem komist hefði fyrir á hálfu A4 blaði. Til hvers allt þetta umstang löngu áður en öll kurl eru komin til grafar? Hefði ekki verið nóg að senda út stutta fréttatilkynningu í byrjun til að lægja öldurnar og koma í veg fyrir kjaftasögur?

Þetta uppistand í upphafi máls minnir mig annars á áðurnefnt Ásmundarsmygl fyrir 40 árum. Þar gerðu fimmmenningarnir í áhöfn bátsins röð mistaka sem hver og ein hefði nægt til að benda á þá sem seka fyrir tilraun til stórsmygls. Sama virðist hafa verið á borðinu í gærkvöldi og morgun. Mennirnir leigja eða kaupa seglskútu, fylla af fíkniefnum og sigla til Íslands á hægustu ferð þegar allra veðra er von. Meðhjálparinn í landi á ekki einu sinni til farsíma til að hringja úr og virðist ekki hafa ráð á landakorti til að glöggva sig á að hann sé kominn til Fáskrúðsfjarðar.

Það þarf ekki sex löggur skreyttar eins og jólatré til að segja okkur að þessir svokölluðu fíkniefnasmyglarar eiga betur heima á uppeldisstofnun. Nær væri fyrir löggurnar að einbeita sér að því að finna þann aðila sem fjármagnaði glæpinn en að hreykja sér á skjánum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli