sunnudagur, september 09, 2007

9. september 2007 - Grískur fótbolti

Ef ég man rétt fór fram Evrópukeppni í fótbolta árið 2004 sem Grikkir unnu með hjálp þýsks þjálfara. Leikaðferð Grikkjanna gekk út á að pakka liðinu í vörn og reyna að skora úr skyndisóknum. Þessi aðferð tókst mjög vel og Grikkir hlutu bikarinn eftirsótta, en ekki þótti aðferðin áhorfendavæn.

Á laugardagskvöldið horfði ég á fótboltaleik í sjónvarpinu. Það kom ekki til af góðu því ekki var boðið upp á neitt annað í ríkissjónvarpinu fyrr en leiknum var lokið. Ekki þótti mér knattspyrnan rismikil sem boðið var upp á, bæði liðin inni á vallarhelmingi Íslendinganna mestallan tímann og svo var reynt að fara í skyndisóknir að grískum sið.

Sjónvarpsvélunum var einhverju sinni beint að landsliðsþjálfaranum þar sem hann var að tala í símann. Mér datt strax til hugar að nú væri Eyjólfur að ráðfæra sig við kollega sinn hjá gríska landsliðinu.

Má ég þá heldur biðja um góðan leik með Halifaxhrepp þar sem ólympíuhugsunin ræður ríkjum.


0 ummæli:Skrifa ummæli