miðvikudagur, september 26, 2007

26. september 2007 - Eftirlit með ströndum?


Reglulega berast okkur sauðsvörtum almúganum fréttir af fíkniefnaneyslu fanga á Litla-Hrauni, smygli á fikniefnum þangað inn og viðurlögum við slíku athæfi. Þessar fréttir virðast stundum vera dálítið fjarlægar ekki síst í ljósi þess að Litla-Hraun ætti eðlis síns vegna og einangrunar frá samfélaginu að vera sá staður á Íslandi sem er helst laus við slíkan ófögnuð sem fíkniefnin eru. Ónei, ekki aldeilis. Ef marka má fréttirnar er allt á kafi í dópi og vímu þar inni.

Nú vill dómsmálaráðherra herða eftirlitið með ströndum landsins. Forstjóri Landhelgisgæslunnar vill koma á ratsjáreftirliti meðfram ströndum til að fylgjast sem nákvæmast með öllum skipaferðum og ýmsir hafa á orði að auka þurfi eftirlitið í höfnum og á flugvöllum til að tryggja að ekkert dóp komist til landsins, allt í krafti þess að yfirvöld fundu mikið magn af fíkniefnum og náðu glæponum í stað þess að koma í veg fyrir smyglið frá upphafi. En gaman. Þetta fer að minna æ meira á gamla Sovétið.


Í gegnum hugann rifjast gömul ævintýri frá siglingum til Sovétríkjanna sálugu. Þegar nálgast var ströndina sást hvar öflugir ljóskastarar lýstu upp sjóinn utan strandarinnar til að tryggja að óvinurinn kæmist ekki að ströndinni (eða var það til að tryggja að engir flóttabátar kæmust frá ströndinni í skjóli myrkurs?). Eftir að hafa eytt dögum og jafnvel vikum á ytri höfninni undir stöðugu eftirliti tók strangt vegabréfaeftirlit og könnun á fjármunum. Það var svo ekki fyrr en við brottför að virkileg leit hófst auk þess sem leitað var í farmi. Þá var eins gott að gera grein fyrir þeim fjármunum sem höfðu tapast meðan á dvöl í höfn stóð og alls ekki játa að hafa skipt í rúblur á svörtum markaði. En það er önnur saga.
(Í draumum mínum sé ég ljóskastarana lýsa upp strendur Íslands í leit að dópinu. Það styttist stöðugt í framtíðardrauminn um Sovét-Ísland.)


Áhöfn skips þar sem ég var þekkti til í gamla daga var lögð í einelti af þáverandi Tollgæslustjóra. Tollverðir fengu stöðugt ný fyrirmæli um aukna hörku í samskiptum sínum við hina stórhættulegu áhöfn skipsins og urðu að hlýða hvað sem raulaði eða tautaði. Þrátt fyrir ótrúlega fjármuni sem varið var í leit í skipinu fannst sjaldan neitt. Kannski ein og ein flaska sem einhver hafði reynt að fela innanklæða eða á milli þilja en fátt meira. Einn góðan veðurdag mátti svo lesa í dagblöðum að áhöfnin hefði smyglað fleiri þúsund flöskum af áfengi í land fyrir framan vökul augu embættismanna ríkisins.

Við getum hert allt eftirlit með gífurlegum kostnaði. Við getum byggt múra og elt hvert einasta skip og hverja einustu flugvél sem kemur til landsins. Fikniefnasmyglarar munu samt halda áfram að smygla til landsins rétt eins og að vonlaust virðist vera að koma í veg fyrir smygl inn á Litla-Hraun.

Er ekki gáfulegra að reyna að minnka eftirspurnina með fræðslu og áróðri í stað þess að setja alla þjóðina í hlekki á bak við múra?


0 ummæli:







Skrifa ummæli