þriðjudagur, september 18, 2007

18. september 2007 - Útvísun eftir afbrot!

Í gær fréttist af því að íslendingur hefði verið verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Kaupmannahöfn auk tíu ára útvísunar frá Danmörku að afplánun lokinni. Mér fannst þetta mildur dómur miðað við umfang málsins og efa ekki að Íslendingurinn hefði fengið mun þyngri dóm á Íslandi þótt hann hefði sloppið við útvísun, enda bannað að vísa Íslendingum úr landi á Íslandi.

Í fréttum Ríkisútvarpsins fannst mér ég heyra hluttekningu með vesalings íslenska föðurnum sem á barn í Danmörku og sem hann fær ekki að sjá næstu tíu árin. Ég hefi enga samúð með honum. Hann hefur unnið fyrir dóm sínum og blessað barnið hans getur bara heimsótt hann til Íslands eftir lúkningu refsingar.

Annars skil ég ekki hvað er svona hörmulegt fyrir Íslending að vera vísað úr landi í Danmörku fyrir jafnmikinn glæp og hér um ræðir. Finnsk vinkona mín framdi afbrot í Svíþjóð, afbrot sem þykir ekki einu sinni afbrot í flestum ríkjum heims og var reyndar fyrst allra til að hljóta dóm fyrir afbrot sitt eftir nýlegum lögum um bann við vændi og starfsemi hóruhúsa í Svíþjóð. Hún hlaut fjögurra ára fangelsi og útvísun í tíu ár frá Svíþjóð að afloknu fangelsi. Dómurinn gegn henni þótti harkalegur í Svíþjóð, en þó var honum fagnað meðal feminista á Norðurlöndum, meðal annars á Íslandi.

Þótt ég hafi fyrirlitið atferli hinnar finnsku vinkonu minnar, þá aðstoðaði hún mig að koma mér fyrir í nýju landi er ég fluttist til Svíþjóðar árið 1989. Sjálf lauk hún prófi í félagsfræði í Svíþjóð og fjármagnaði menntun sína með vændi áður en hún stofnaði hóruhús þau sem hún var dæmd fyrir.

Núna virðast Íslendingar vera að hneykslast á því að íslenskur stórglæpamaður skuli ekki fá að búa áfram í Danmörku að aflokinni refsingu. Betur að Íslendingar geri slíkt hið sama og Danir og Svíar og ég efa ekki að íslenskir dómstólar dæmi eftir lögunum og sendi glæponana snarlega úr landi að aflokinni refsingu. Þeir eiga það skilið.

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/140651/#comments


0 ummæli:







Skrifa ummæli