föstudagur, september 21, 2007

21. september 2007 - Smyglað á Fáskrúðsfirði!


Í þá gömlu góðu daga þegar millilandaskipin komu við á ströndinni á ferðum sínum til og frá útlöndum, þótti sjálfsagt og eðlilegt að hafa tollverði starfandi á helstu viðkomustöðum þegar komið var frá útlöndum, ekki síst þegar haft var í huga að erfitt var að nálgast drykkinn görótta víða á landsbyggðinni. Þessir menn voru misjafnir eins og fólk er flest og sumir sem tóku starf sitt með meiri áhuga en aðrir, þar á meðal Herbert á Akureyri og tollvörðurinn á Fáskrúðsfirði. Ekki man ég hvað hann hét, en við skulum kalla hann Friðrik. Friðrik var reglusamur og uppfullur af gömlum ungmennafélagsanda og því lítt hrifinn af drykkjuskap og svalli.

Friðrik hafði það fyrir sið að standa við landganginn á meðan skipin lágu í höfn og fylgjast með allri umferð að og frá skipi og því hvort einhverjir væru að laumast frá borði með bokku innanklæða. Einhverju sinni sá hann hvar einn skipverja gekk niður landganginn og stillti sér upp á bryggjunni neðan við stefni skipsins, en annar skipverja fór fram á bakkann með bjórkassa. Sá kastaði bjórkassanum niður til drengsins sem stóð á bryggjunni, hann greip kassann fimlega og hljóp af stað upp bryggjuna. Friðrik hljóp af stað á eftir drengnum og í gegnum allt þorpið. Þótt drengurinn væri áratugum yngri en Friðrik, var sá gamli enn uppfullur af ungmennafélagsanda og náði drengnum á endanum utan þorpsins. Reyndist bjórkassinn vera tómur. Meðan á þessu stóð fór mikil sala á áfengi fram um borð í skipinu.

Í öðru tilfelli stóð Friðrik plikt sína við landganginn á meðan bát var róið að útsíðu skipsins og áfengið afhent í gegnum kýrauga í skjóli myrkurs.

Ekki tókst alltaf jafnvel að plata þann gamla. Eitt sinn var skipið farið og tveir ungir aðkomumenn settust á tröppur húss til að kasta mæðinni og létu flöskuna ganga á milli sín og grobbuðu hátt um hvernig þeir hefðu platað helvítis tollvörðinn. Skyndilega kom hendi aftanfrá og greip flöskuna af þeim. Var þar Friðrik sjálfur mættur utan við sínar eigin útidyr á náttklæðunum einum fata.

Frásagnir birtar með fyrirvara um nákvæmni sagnanna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli