fimmtudagur, janúar 10, 2008

10. janúar 2008 - Spurningakeppni nördanna.

Eins og allir vita sem þekkja mig, þá er ég ekki nörd í spurningakeppnum. Þó fæ ég alltaf hiksta þegar kemur að slíkum keppnum í útvarpi svo ekki sé talað um keppni í sjónvarpi.

Í spurningakeppninni Gettu betur er spurt margvíslegra spurninga. Sumar spurningarnar þekki ég af ritum þeirra feðga, Páls Ásgeirs spurningahöfundar og dómara, og föður hans Ásgeirs Svanbergssonar. Mér telst svo til að ég eigi þrettán bækur eftir feðgana í bókasafni mínu en auk þess eiga þeir góða spretti í mörgum öðrum bókum í safni mínu, enda báðir í miklu uppáhaldi hjá mér sökum fræðistarfa sinna, hvor á sínu sviði.

Ekki er ég alveg sátt við svörin sem heyrast í útvarpi allra landsmanna. Skyndilega er Jón Baldvin orðinn síðasti móhíkaninn í Alþýðuflokknum og ég sem hélt að Sighvatur Björgvinsson hefði leyst hann af hólmi á endasprettinum, áður en Guðmundur Árni Stefánsson tók við keflinu eftir sameiningu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags ofl í Samfylkingunni. Þá þykir mér leitt að heyra að Noregur eigi ekki lengur landamæri að Rússlandi. Sömuleiðis þætti mér gaman að heyra hvað heyrðist í dómaranum ef ég svaraði því til að flugvöllurinn í Stokkhólmi héti Bromma en ekki Arlanda. (Arlanda er ca 45 km fyrir norðan Stokkhólm).

Gott ráð til spurningahöfunda er að sneiða hjá vafasömum spurningum, ef ekki, að leita í smiðju til Stefáns Pálssonar.


0 ummæli:Skrifa ummæli