mánudagur, janúar 28, 2008

29. janúar 2008 - Pólitískt sjálfsmorð

Ég viðurkenni alveg að ég var oft mjög gagnrýnin á þá félaga Björn Inga Hrafnsson og Óskar Bergsson í kosningabaráttunni 2006, þó fremur Óskar. Ég var þó mjög ósátt við það hvernig Birni Ingi skyldi vera hampað framyfir Önnu Kristinsdóttur, en þótt ég væri ekki tengd Framsóknarflokknum, þekkti ég ágætlega til verka hennar í borgarstjórn auk þess sem ég er ágætlega kunnug stórfjölskyldunni hennar, þar á meðal kollega mínum sem er bróður hennar.

Þrátt fyrir pólitíska andstöðu mína við Björn Inga kunni ég ágætlega við hann og hreifst jafnvel af ákafa hans og pólitískri framagirnd. Þá var ég ágætlega sátt við stuðning hans og vesalings Villa við hið stórkostlega útrásarverkefni sem beið Orkuveitunnar í samsteypu REI og GGE þótt það hafi fallið á formsatriðunum.

Mér hefur aldrei líkað við Guðjón Ólaf Jónsson. Þegar hann hóf að rægja Björn Inga Hrafnsson var það eins og vondi kallinn í skáldsögunni væri mættur og ætlaði sér að fremja enn eitt illvirkið. Ég var enn ekki búin að gleyma að fullu áróðri hans gagnvart Salvör Gissurardóttur fyrir nokkrum árum og fékk á tilfinninguna að Björn Ingi væri næsta fórnarlamb. Auðvitað er hann ekkert fórnarlamb, en Guðjón Ólafur beitti kolvitlausri aðferð við að fella fyrrum félaga sinn úr valdastóli.

Nú er Björn Ingi Hrafnsson hættur og farinn. Um leið grunar mig að hann sé ekki síðasta fórnarlambið sem fellur í vígum Framsóknarflokksins. Satt best að segja grunar mig að framferði Guðjóns Ólafs sé pólitískt sjálfsmorð og að flokkurinn verði að losa sig við hann sem fyrst svo hann dragi ekki allan flokkinn með sér í fallinu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli