fimmtudagur, janúar 17, 2008

18. janúar 2008 - Annað stórafmæli!

Öfugt við manninn sem varð sextugur í gær (ég sá í blaðinu að Jóhann Ragnarsson, gamall kunningi minn frá Eimskip varð líka sextugur í gær, til hamingju Jói), þá nær einn sem í fjölskyldu minni þeim merka áfanga í dag að verða löggilt gamalmenni. Öfugt við Davíð og fjölda annarra hefur elsti bróðir minn ekki efni á því að fara á eftirlaun 67 ára gamall, enda greiddi hann ekki í lífeyrissjóð í fjölda ára sökum þess að hann starfaði sem verktaki og lagði ekki nóg fyrir til elliáranna.

Sjálf hefi ég greitt í lífeyrissjóð frá því á unglingsárum en er þó ekkert of sæl af því sem mér verður ætlað úr lífeyrissjóðum fyrri ára. Þar kemur fyrst og fremst til verðbólgan sem át upp stóran hluta lífeyrissparnaðarins sem ég aflaði á yngri árum auk þess sem stundum var einungis greitt í lífeyrissjóð af grunnlaunum en ekki heildarlaunum.

Sem betur fer er komið betra skikk á þessa hluti hin síðari ár sem ásamt viðbótarlífeyrissparnaði ætti að nægja mér til þokkalegrar afkomu síðustu æviárin. Það nægir hinsvegar ekki fyrir bróður minn sem mun hafa það skítt með þau eftirlaun sem honum verða úthlutuð úr almannatryggingakerfinu þegar kemur að því að starfsorkan bregst og hann neyðist til að hætta að vinna.

-----oOo-----

Ég veit að það er ljótt að nudda salti í sárin, en mér var boðið að taka þátt í getraun um úrslit í handboltaleik í gær. Þegar þrjár manneskjur voru búnar að ákveða að Svíar myndu vinna með tveggja marka mun, bætti ég um betur og bætti við þriðja markinu og fékk hiksta í kjölfarið. Flest sem tóku þátt veðjuðu þó á íslenskan sigur. En ekki bjóst ég við því að Svíþjóð myndi jarða Ísland í fyrsta leiknum á þessu móti.

Sem ég hefi alltaf sagt. Íslendingar eiga að snúa sér að krullu í stað boltaleikja.


0 ummæli:







Skrifa ummæli