mánudagur, janúar 07, 2008

7. janúar 2008 - Bless Kertasníkir, sjáumst í vor.

Oft sakna ég jólanna og bíð þess í ofvæni að desember renni upp svo ég geti farið að hengja upp jólaseríur og spila jólalögin. Um leið finnst mér nánast eins og guðlast að spila jólalögin utan þessa tíma, þ.e. frá desemberbyrjun til og með þrettándans.

Í þetta sinn er ég fegin að jólunum er lokið og Kertasníkir farinn aftur til fjalla á vit bræðra sinna og móður. Þessi leiðindaveður sem hafa verið í gangi að undanförnu hafa valdið því að krakkarnir náðu því ekki að klára sprengjupakkana sína á gamlárskvöld og voru því að dunda sér við sprengjurnar allt fram á þrettándann mér og mörgum öðrum til armæðu og leiðinda, þó sérstaklega kisunum mínum sem hafa vart þorað út fyrir hússins dyr síðan um jól.

Með aflokinni jólahátíðinni get ég með góðri samvisku hent kínverska jólaseríudraslinu í ruslið og lofað sjálfri mér því að kaupa aðeins vandaðri seríur að ári, einhverjar sem kosta nokkrum krónum meira en sem endast jólin og nýárið.

Nú er að byrja gönguferðirnar á ný, ná af sér jólakílóunum og komast í form áður en farið er á fjöll í vor til móts við Kertasníkir og bræður hans á þeirra heimaslóðum.

-----oOo-----

Viðtal Evu Maríu við Pál Óskar var flott og með hreinskilni sinni stækkaði hann mikið í augum mínum. Ekki veitti af. Takk Palli


0 ummæli:







Skrifa ummæli