þriðjudagur, janúar 15, 2008

16. janúar 2008 - Ruslpóstur!

Fyrir nokkrum árum var ég komin með slíkt ógeð á prentuðum ruslpósti að ég kom við á pósthúsi og fékk gulan miða þar sem ég afþakkaði svokallaðan fjölpóst, öðru nafni ruslpóst. Í flestum tilfellum hefur verið farið eftir þessu og hefi ég verið að mesu leyti blessunarlega laus við ruslpóstinn síðan þá, en um leið má geta þess að ég lít ekki á Árbæjarblaðið sem ruslpóst heldur sem samfélagsupplýsingar þótt megininntakið séu auglýsingar.

Í blokkinni þar sem ég bý, eru átta íbúðir og flokkum við sorpið eins og okkur er unnt og erum með svokallaða bláa tunnu undir dagblöð og fjölpóst sem oftast fer ólesinn í tunnuna. Tunnan er ávallt troðfull í hvert sinn sem hún er losuð þannig að við þyrftum helst að vera með tvær bláar tunnur, en það kostar peninga. Því kjósum við frekar að fara með umframpappírinn út í næsta blaðagám þegar tunnan er orðin full.

Ég heyrði ávæning af þætti um ruslpóst í útvarpinu á þriðjudag. Þar kom fram að ekki er lengur hægt að fá gula miða hjá Póstinum til að setja á póstkassana og er það miður, auk þess sem auglýsendur ætlast til að ruslið sé borið í póstkassa fólks hvort sem því líkar betur eða ver.

Ég velti því fyrir mér hvað fyrirtækin sem auglýsa myndu gera ef fólk tæki sig til í stórum stíl og skilaði pappírnum til þeirra? Það má ímynda sér að fólk safni saman auglýsingunum frá Hagkaup eða BT og skili þessu inn í búðina næst þegar það á leið framhjá.

Ætli verslanirnar gætu neitað að taka við ruslinu sínu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli