miðvikudagur, janúar 09, 2008

9. janúar 2008 - Á að friða Laugaveginn?

Nú hefur húsafriðunarnefnd ákveðið að leggja til við menntamálaráðherra að gamlir fúahjallar sem voru byggðir af vanefnum í lok nítjándu aldar verði látnir standa neðst á Laugaveginum um aldur og ævi til að sýna túrhestunum hvað við höfðum það skítt í lok nýlendutímans. Til þess að tryggja heilsteypta nítjándu aldar götumynd á þessum stað verður þá eðlilegast að þau hús sem voru byggð á þessum slóðum um miðja tuttugustu öld og síðar, verði rifin og litlir kofar verðir byggðir af vanefnum í þeirra stað. Í framhaldinu verður eðlilegast að setja upp hlið á horni Laugavegar og Klapparstígs og selja aðgang að hinu nýja minjasafni í miðbæ Reykjavíkur því eitthvað munu herlegheitin kosta væntanlegum túrhestum til yndisauka. Það má einnig hugsa sér að flytja gömlu húsin úr Árbæjarsafni niður á Laugaveg og byggja blokkir og verslunarhús á lóð Árbæjarsafns í staðinn.

Við hin munum halda áfram að sækja Kringluna og Smáralind heim og höfum fyrir bragðið ekkert niður í bæ að sækja lengur annað en að horfa á gamla fúahjalla. Reykjavík er hvort eð er að verða eins og borgir í Ameríku með dauðan miðbæ og verslunarmiðstöðvarnar í úthverfum.


0 ummæli:Skrifa ummæli