miðvikudagur, janúar 30, 2008

30. janúar 2008 - Af vísdómi Tótu pönk

“Sá maður sem ekki má gera grín að, hann er ekki í góðum málum,” sagði einhver gamall vinnufélagi minn sem ég tók alltaf mark á. Þess vegna finnst mér að það megi gera grín að flestöllu sem yfir okkur mannfólkið dynur, nema einmitt þeim sem alls ekki eru í góðum málum. Tildæmis fórnarlömbum ofbeldis; misnotuðum börnum, nauðguðum konum og öllu því fólki sem í sársauka og niðurlægingu megnar ekki að bera hönd fyrir höfuð sér.”

Þessi orð eru sem töluð úr mínum gáfaða munni. Því miður á ég ekkert í þeim því þetta eru orð sem Tóta pönk vinkona mín hafði eftir einhverjum vinnufélaga sínum. Hvað á svo að segja um það fólk sem ekki þolir að gert sé grín að því? Því miður er nokkuð um slíkt, meðal annars innan borgarstjórnar Reykjavíkur. Þar er ég hvorki að tala um vesalings Villa né Björn Inga sem báðum var slátrað í síðasta Spaugstofuþætti án þess að þeir sæu ástæðu til andmæla. Þá hefur löngum verið talið fólki til tekna að Spaugstofan hafi gert grín að þeim, jafnvel þótt grínið hafi verið talið eiga þátt í snautlegum endi á glæsilegum pólitískum ferli (engin nöfn nefnd).

Ónefndir pólitíkusar mega þakka fyrir að það var hin meinlausa Spaugstofa sem gerði grín að þeim á laugardagskvöldið var. Mig grunar að þeir hefðu fengið mun verri meðferð hjá ýmsum öðrum grínistum, bæði hér heima og erlendis.


0 ummæli:Skrifa ummæli