fimmtudagur, janúar 24, 2008

24. janúar 2008 - Valdaskiptin í borginni

Ég ætlaði fyrst að nota fyrirsögnina Haltur leiðir blindan, en hætti við það því öryrkjar eiga það ekki skilið að vera kenndir við hinn nýja meirihluta í borginni.

Fólki hefur fundist ég vera óvenju fámál um valdaskiptin sem nú eru að eiga sér stað í Reykjavíkurborg. Það er eðlilegt að ég sé fámál. Þessi atburðarás kom mér ekkert sérstaklega mikið á óvart, ekki síst eftir kjökur Ólafs F. Magnússonar þegar vesalings Villi ákvað fremur að ganga til hjónabands með Binga en Ólafi vorið 2006.

http://velstyran.blogspot.com/2006/05/30-ma-2006-skjta-fyrst-og-spyrja-svo.html

Þegar ég frétti svo að Ólafur F. Magnússon væri kominn aftur til starfa eftir veikindaleyfi, jukust efasemdir mínar mjög um framhald þáverandi meirihlutasamstarfs ekki síst í ljósi reynslunnar og þess hve Ólafi var annt um að komast í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum.

En fátt er svo með öllu illt að eigi boði eitthvað gott. Með því að Dagur B. Eggertsson stígur úr borgarstjórastólnum, kemur öflugur liðsmaður inn í hverfapólitíkina að nýju. Rétt eins og hann hefur starfað þessa þrjá mánuði sem borgarstjóri af heilindum, mun hann einnig gera slíkt hið sama í stjórnarandstöðu og ég treysti því að næstu stjórnarskipti í borginni verði einnig af heilindum, ekki eins og nú þar sem sjá mátti vesalings Villa og Ólaf og á bakvið þá hina sex rýtinga haustsins sem nú bíða þess í ofvæni að geta greitt vesalings Villa hið andlega náðarhögg til að koma sjálfum sér í valdastólana.

Senn tekur fjórði stjórnarformaðurinn við Orkuveitu Reykjavíkur á innan við tveimur árum. Er ekki kominn tími til að skapa frið um þetta ágæta fyrirtæki okkar allra?

-----oOo-----

Einn er sá stjórnmálamaðurinn sem sannarlega getur glaðst vegna valdaskiptanna í borgarstjórn. Það er Árni Mathiesen sem var sem skorinn niður úr snörunni með því að fólk fékk skyndilega eitthvað annað að tala um.


0 ummæli:







Skrifa ummæli