mánudagur, janúar 28, 2008

28. janúar 2008 - Að týna fólki og finna fólk aftur

Í lífinu er maður alltaf að kynnast nýju fólki á meðan annað fólk hverfur út úr lífi manns, flytur á nýjan stað, hættir í vinnunni eða hvaðeina. Þrátt fyrir það skilur það eftir fallegar og ljúfar minningar sem maður geymir með sér í mörg ár á eftir.

Ein slík manneskja er Linus. Hún starfaði við heilsufarmál og þjálfun hjá sama fyrirtæki og ég í Stokkhólmi og vorum við ágætis vinir á þeim tíma sem ég starfaði þar. Þegar ég flutti heim héldum við uppi bréfasambandi um skeið en svo lognaði það útaf þegar hún hætti hjá Orkuveitunni í Stokkhólmi og flutti út á land.

Um daginn var ég að fara í gegnum gömul bréf og póstkort og fór þá að velta henni fyrir mér, en gat ómögulega fundið hana í sænsku símaskránni. Að lokum settist ég við tölvuna og sendi bréf til sameiginlegs vinar okkar í Stokkhólmi. Hann svaraði fljótlega og nefndi að Linus hefði skipt um eftirnafn þegar hún gifti sig, starfaði sjálfstætt og byggi í Stokkhólmi. Með nýjar upplýsingar var auðvelt að finna manneskjuna.

Í gær sendi ég henni bréf með netpóstinum og viti menn. Svarið kom um hæl.

Nú er bara að gæta þess að glopra ekki sambandinu niður aftur.


0 ummæli:Skrifa ummæli