miðvikudagur, janúar 02, 2008

2. janúar 2008 - Völvuspá vélstýrunnar fyrir árið 2008

Það þykir góður siður á áramótum að lesa í kattagarnir eða rýna í kristalskúlu eða annað það sem dregur fram spádómsgáfuna. Þannig mun völva Vikunnar spá í tarotspil en ég læt mér nægja að skoða óhreinindin í skítugu ölglasi sem gleymdist að setja í uppþvottavélina í morgun.

Rétt eins og völva Vikunnar, get ég gumað af mikilli spádómsgáfu. Þannig spáði ég því að haldnar yrðu kosningar síðastliðið vor eins og reyndin varð, en einnig spáði ég því að Framsóknarflokkurinn myndi ekki þurrkast út á árinu sem einnig gekk eftir þótt hann hefði smækkað mikið. Sömuleiðis gekk Júróvisjónspá mín eftir þar sem ég hafði spáð því að Silvía Nótt myndi ekki vinna Júróvisjón fremur en árið á undan.

Veðurspáin brást mér illilega en þar hafði ég spáð risjóttu veðurfari allt árið. Þess í stað kom mánuður þar sem ekki kom dropi úr lofti og svo rigndi það sem eftir var. Þá varð ekkert eldgos á árinu.

Glasið fyllt og rýnt í gulan vökvann.

Af stjórnmálunum er það helst að það mun verða mun kyrrlátara á Alþingi en hefur verið. Vinstrigrænir munu halda áfram að tala mest allra, en munu þurfa að hlusta á bjöllu forseta í hverri ræðu vegna takmarkanna á ræðutíma. Ríkisstjórnin mun ekki falla á árinu, til þess þykir sumum of mikið vænt um stólana sína, en það munu verða sviptingar umhverfis Jóhönnu Sigurðardóttur. Það verður fjör í borgarstjórn og þar mun Svandís tala mest og hæst allra, en hvort hún segi eitthvað af viti skal ósagt látið. Þá mun Ólafi F. Magnússyni finnast hann hafa verið settur útundan á meðan hann var lasinn og mun hann þurfa að sýna öllum að hann hafi endurheimt heilsuna. Deilurnar um Vatnsmýrarflugvöll munu halda áfram á árinu og verður svo lengi, eða þar til flugvöllurinn verður færður, hvenær sem það verður.

Ástþór Magnússon mun reyna að verða forseti Íslands, en honum tekst það ekki fremur en venjulega, reyndar óvíst hvort honum takist að safna nógu mörgum meðmælendum. Hann verður því að bíða í fjögur ár í viðbót eftir stóra tækifærinu.

Glasið fyllt aftur og rýnt enn meir í gullinn vökvann.Íslendingar munu slá í gegn í Júróvisjón. Það verða þó hvorki Björk Guðmundsdóttir né Sigurrós sem þar verða að verki heldur Barði banggang ásamt arftaka Silvíu Nætur með dúettinum Jötunuxarnir sem munu slá á trumbur og slá í gegn í Belgrað í vor. Geir Ólafsson mun ekki slá í gegn né heldur mun Nancy Sinatra heimsækja hann á nýja árinu.

Af veðrinu er það helst að það mun rigna á nýja árinu. Þá verður hugsanlega eldgos á árinu en það verður vart fyrr en seint í haust, jafnvel ekki fyrr en um næstu áramót

Glasið enn fyllt af gylltum vökvanum.

Af persónulegum málum er það helst að ég mun fara í tvær utanlandsferðir árinu sem er einni ferð minna en ég hefði kosið. Þá mun ég halda áfram að eiga minn gamla góða vinstrigræna Súbaru í eitt ár enn, enda vagninn búinn að öðlast mikla reynslu af að aka mér hvert á land sem er í fjölda ára. Bréfin mín í REI verða verðlaus á árinu og þekking mín á góðakstri mun dvína umtalsvert eftir að Jón Ásgeir náði sýningarréttinum yfir til sýn og fyllti af auglýsingum. Nógu slæmt var það fyrir.

Kílóin sem ég bætti á mig í rigningunni munu hverfa aftur þegar líður á vorið og ég mun hlaupa á 15 tinda á árinu.

Ég mun ekki slá í gegn í bloggheimum, ekki frekar en fyrri daginn. Það verða þó einhverjar breytingar á bloggskrifum mínum, en frekar að dregið verði úr þeim til hagsbóta fyrir aðrar skriftir. Það munu hinsvegar margir reyna að komast í bolinn hans Bols Bolssonar og fara þau Stefán og Gerður þar fremst í flokki, en margir minni spámenn munu fylgja þeim eftir.

Semsagt, árið verður hefðbundið að flestu leyti

Þessi bloggfærsla er í boði Ölgerðar Egils Skallagrímssonar og áhafnarinnar á Hákoni sem færði mér þennan dýrindis ölkassa að gjöf fyrir jólin.

-----oOo-----

Svo fær hann Már Gunnþórsson hamingjuóskir með hafa næstum því náð mér í aldri, en ég verð samt alltaf hænufetinu á undan.


0 ummæli:







Skrifa ummæli