laugardagur, janúar 05, 2008

5. janúar 2008 - Enn af veggjakroti

Ég hefi fengið nokkra gagnrýni á mig frá tveimur vinkonum mínum sem starfa innan fjölmiðla fyrir að blanda fjölmiðlum inn í gagnrýni á veggjakrot. Því vil ég árétta eftirfarandi:

Það er alls ekki ætlunin að skamma fjölmiðla fyrir eitt né neitt. Það er hinsvegar svo að skemmdarvargar þeir sem klottra á húsveggi uppveðrast ef þeir fá myndir af verkum sínum í dagblöðum eða í sjónvarpi. Fyrir þeim er slíkt sem persónulegur sigur, að þeir hafi unnið eitthvert ímyndað stríð gegn genginu í næsta hverfi eða bara næsta klottraragengi.

Slíkt er löngu vitað og frægt dæmi er þegar margar sjónvarpsstöðvar ákváðu að hætta að sýna myndir frá aftökum gísla meðal hópa terrorista. Þegar sjónvarpsstöðvar hættu að sýna slíkar myndir fækkaði aftökum gísla verulega. Sama lögmál gildir um veggjakrot þótt um sé að ræða tiltölulega vægt afbrot. Það er í lagi að segja frá glæpnum, svo fremi engar myndir birtast opinberlega.

Því er nauðsynlegt að hætta að birta nýjar myndir af veggjakroti og nota einvörðungu gamlar myndir, helst nokkurra ára gamlar svo ungir skemmdarvargar þekki ekki aftur verk sín.


0 ummæli:Skrifa ummæli